149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

viðbótarframlag til SÁÁ.

[13:45]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið. Það gleður mig ákaflega mikið ef við erum farin að sjá hilla undir að þetta fjármagn verði greitt út og samningur gerður við Sjúkratryggingar Íslands. Það er eins og þar standi hnífurinn í kúnni.

Það er alveg rétt sem hæstv. heilbrigðisráðherra segir, hún les það nánast orðrétt upp sem fjárlaganefnd samþykkti fyrir jólin. Ég held að við þurfum ekkert að velkjast í vafa um það, sem er ánægjulegt. Spurningin er frekar hvenær megi eiga von á því. Þurfum við nokkuð að óttast að þurfa að grípa til slíkra ráðstafana? Við vitum hvað neyðin er mikil og ákallið hátt um að komast í meðferð. Getum við ekki verið svolítið bjartsýn og horft upp á að gerður verði samningur á næstunni við SÁÁ, helst sem fyrst? Það er bara spurning hvenær.