149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

geðheilbrigðisþjónusta fyrir fanga.

[13:47]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Bann við pyndingum og annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð eða refsingu er algert og án undantekninga í öllum lýðræðisríkjum. Sömuleiðis er það verkefni allra lýðræðisríkja og lýðræðisstjórna að gera sitt ýtrasta til að koma í veg fyrir brot á þessari grundvallarreglu sem m.a. er lögfest í mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá Íslands. Hvergi er ábyrgð stjórnvalda til að skapa mannúðlegt umhverfi, laust við ofbeldi, vanvirðingu eða pyndingar, jafn mikilvæg og í þeim vistarverum sem hýsa þær manneskjur sem ríkisvaldið hefur svipt frelsi sínu.

Til að standa sem best vörð um að ríki sinni þessum skyldum sínum hafa þau komið sér upp alþjóðlegum eftirlitsnefndum, mannréttindadómstólnum og umboðsmönnum heima fyrir sem saman hafa það hlutverk að leiðbeina stjórnvöldum um lagaramma, aðstæður og þjónustu sem verður að vera til staðar svo að lágmarka megi líkur á brotum.

Virðulegur forseti. Nú er það svo að Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð eða refsingu, oft nefnd CPT-nefndin, hefur um árabil beint því til íslenskra stjórnvalda að bæta úr alvarlegum skorti á geðheilbrigðisþjónustu fyrir fanga, síðast í skýrslu sinni árið 2013. Ríkisendurskoðun benti á þennan skort í skýrslu sinni 2010 og umboðsmaður Alþingis hefur ítrekað undanfarin ár hvatt ráðuneyti hæstv. ráðherra til að bæta geðheilbrigðisþjónustu fyrir fanga án teljandi viðbragða eða úrbóta af hálfu ráðuneytisins.

Dómsmálaráðuneytið hefur staðfest að núverandi fyrirkomulag tryggi ekki vernd fanga gegn pyndingum og annarri vanvirðandi meðferð eða refsingu í fangelsum landsins.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er við þetta að una? Hvers vegna virðist ráðuneyti hæstv. ráðherra alveg sama um grundvallarmannréttindi fanga? Hvenær stendur til að ráðast í úrbætur til að tryggja aðgang fanga að geðheilbrigðisþjónustu við hæfi?