149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

geðheilbrigðisþjónusta fyrir fanga.

[13:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég og mitt ráðuneyti höfum tekið þessar ábendingar afar alvarlega og okkur er ekki alveg sama um þá þjónustu sem fangar fá frekar en aðrir. Það er auðvitað mikilvægt að allir njóti heilbrigðisþjónustu, óháð því hvort viðkomandi eru í fangelsi eða ekki.

Ánægjulegt er að segja frá því að samningar milli Sjúkratrygginga Íslands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Árbæjar, eru á lokastigi. Þeir samningar fjalla um þjónustu við fanga á Hólmsheiði á dagtíma, þ.e. hefðbundna heilsugæslu, og vegna útkalla.

Geðheilbrigðisþjónusta, þ.e. geðlæknir og geðhjúkrunarfræðingur, er hluti samningsins. Það er sérstakur undirsamningur við geðsvið Landspítala. Sá samningur er á lokastigi og síðan er hugmyndin sú að þetta módel verði fært yfir á önnur fangelsi í landinu í samvinnu við heilbrigðisstofnanir á svæðinu og geðdeildir viðkomandi sjúkrahúsa.