149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

geðheilbrigðisþjónusta fyrir fanga.

[13:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ljóst — og við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður — að ástandið í þessum málaflokki hefur verið óþolandi um langt árabil. Það er meira að segja svo að við höfum fengið ábendingar frá alþjóðlegum stofnunum um að við það verði ekki unað. Það er í raun og veru þyngra en tárum taki að við þurfum slíkar ábendingar til að bregðast við.

En ég vil fullvissa hv. þingmann um að mér er það sérstakt ánægjuefni að nú sjái loks fyrir endann á þessari stöðu. Það hvað sé nóg í þeirri þjónustu sem við sjáum fyrir okkur að binda inn í þann samning sem hér er til umræðu verður tíminn að leiða í ljós. En hér erum við að tala um stórt skref sem ætti auðvitað að hafa verið stigið fyrir löngu síðan, þ.e. að tryggja þessa heilbrigðisþjónustu fyrir þennan viðkvæma hóp.