149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

rekstrarumhverfi afurðastöðva.

[14:02]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og sömuleiðis orð hans um endurskoðun á þeim samningi sem snýr að starfsskilyrðum sauðfjárræktarinnar.

Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að snúið er að koma slíkri endurskoðun á vegna þess að hagsmunir sauðfjárbænda eru mjög misjafnir, fara eftir ýmsu og er erfitt fyrir bæði ríkið en ekki síður fyrir forystu bænda að leiða slíka samninga í höfn.

Það er mjög ánægjulegt að verða var við að endurskoðunin er að stærstum hluta óumdeild, menn eru þokkalega sáttir. Það er fyrir mestu.

Hér er réttilega minnst á að afurðastöðvarnar eru ekki sérstaklega teknar inn í samkomulagið, enda erfitt að gera slíkt vegna þess að ríkið hefur ekki umboð til að hlutast til um málefni einstakra fyrirtækja úti í bæ og því síður samtök bænda.

Ég hef svarað því á þann veg að við erum með samkeppnislög í landinu og erum þar með ákveðna ríkisstofnun sem á að vinna eftir þeim lögum og þar er ramminn lagður. Ég hef verið á þeim stað að telja að samstarf fyrirtækja verði fyrst að koma inn á grundvelli þeirrar löggjafar sem Alþingi hefur sett um samkeppni og samstarf á markaði á Íslandi. Ég ræddi það á þann hátt við fulltrúa afurðastöðva og sömuleiðis við Samkeppniseftirlitið að mér þætti eðlilegt að menn tækjust á við þær grundvallarspurningar sem þarna væru uppi vegna þess að almennt væri álitið að tækifæri væri til hagræðingar innan afurðastöðvageirans, sem ég held að flestir geti verið sammála um.

Á mínum vegum í ráðuneytinu er engin bein vinna í gangi í þeim efnum. Ég veit til þess að afurðastöðvarnar tóku (Forseti hringir.) því vel, Samkeppniseftirlitið sömuleiðis, en ég veit ekki nákvæmlega hvar sú vinna stendur.