149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

stjórnsýslulög.

493. mál
[14:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir mikilvæga framsögu í þessu þýðingarmikla máli. Að mínu mati er hér verið að auka réttaröryggi þeirra sem leita eftir þjónustu sveitarfélaga, t.d. útlendinga sem hingað koma og leita til Útlendingastofnunar. Ég tel mikilvægt að skerpt verði á réttindum þeirra samhliða þessu máli og mér finnst það felast í málinu. Það veitir strax ákveðna öryggiskennd að vita að Páll Hreinsson hafi samið málið. Það sýnir að við höfum fengið okkar bestu menn í málið, sem er gríðarlega mikilvægt því að það er oft erfitt að finna hinn vandrataða meðalveg varðandi það annars vegar að þagnarskyldan hafi að markmiði að vernda mikilvæga einkahagsmuni eins og friðhelgi einkalífs — það er annars vegar það sem þagnarskyldan ver — og síðan á hún líka að verja opinbera almenna almannahagsmuni. Það er erfitt að finna þann meðalveg. Þess vegna skiptir máli að vandað verði til verks og er því ánægjulegt að sjá hvernig þetta mál hefur verið unnið. Ég vil hrósa forsætisráðuneytinu fyrir það.

Það er ein spurning sem ég velti fyrir mér. Hún varðar 4. mgr. c-liðar 3. gr. varðandi takmarkanir og brottfall á þagnarskyldu, þ.e. þegar þagnarskylda fellur niður með því að einstaklingurinn sjálfur hefur tjáð sig á opinberan hátt.

Ég held að nefndin verði að fara mjög vel í það þegar einstaklingur tjáir sig, t.d. í fjölmiðli, og segir eitthvað um eigið mál. Er hann þá sjálfkrafa búinn að aflétta þagnarskyldunni? Ég held að það sé ekki svo. Ég held að móta verði ákveðnar verklagsreglur og að (Forseti hringir.) nefndin sjálf verði að veita leiðbeinandi umsögn í nákvæmlega þessu, því að þarna snertir þagnarskyldan einmitt vernd einkahagsmuna og friðhelgi einkalífs.