149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

stjórnsýslulög.

493. mál
[14:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með ráðherra hvað varðar þakkir til Páls Hreinssonar og Eiríks Jónssonar. Þeir eru okkar allra bestu menn í þessum efnum.

Þetta „svo sem“ er víðfrægt, teygjanlegt hugtak sem við þurfum að skerpa á. Ég er hrædd um réttarvernd einstaklinganna þarna. Ef einhver er með, ekki astma, heldur einhvern annan tiltekinn sjúkdóm, er þá stjórnvöldum heimilt að upplýsa af hverju viðkomandi er með viðkomandi sjúkdóm? Eða ef við förum yfir í útlendingaverndina, þau mál ber hátt í samfélaginu, og viðkomandi einstaklingur gefur upp tilteknar ástæður, mega þá stjórnvöld sjálfkrafa upplýsa um tilvist, aðkomu eða aðstöðu viðkomandi einstaklings sem er kannski að sækja um hæli, er flóttamaður?

Það er þetta sem ég vil hvetja hæstv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að skoða. Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér um að þetta atriði verði skoðað þannig að gefin verði út leiðbeinandi umsögn í þá veru þannig að undir eins og þetta er nefnt í fjölmiðlum opnist ekki allar gáttir? Við verðum að halda áfram að fara varlega, að fara ekki gegn friðhelgi einkalífs um leið og við segjum: Auðvitað þarf að gæta almannahagsmuna.

Ég vil hvetja nefndina að fara ítarlega í þetta mál sem og málið í heild. En ég vona að sjálfsögðu að þetta mál verði afgreitt hér á vorþingi.