149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

stjórnsýslulög.

493. mál
[14:34]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður sé kominn inn á mjög áhugavert atriði. Ég vil taka fram, af því að ég vísaði til heilsufarsupplýsinga í fyrra andsvari, að sérstaklega þröng þagnarskylduákvæði gilda um lækna því að þar er um einkar viðkvæmar upplýsingar að ræða. Þetta er ágætlega skýrt í greinargerðinni og ég tek undir með hv. þingmanni að mikilvægt er að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fari ítarlega yfir það.

Ég nefni sem dæmi viðskiptaupplýsingar um fasteignaviðskipti sem eru háðar þagnarskyldu. Þeirri þagnarskyldu er aflétt þegar fasteign hefur verið þinglýst og þar með má segja að kaupsamningurinn sé gerður aðgengilegur almenningi. Þegar einstaklingur tjáir sig viljandi opinberlega um einkamálefni sín sem þagnarskylda hefði að öðrum kosti ríkt um hefur hann í verki samþykkt að aflétta leynd af þeim upplýsingum sem þannig hafa verið birtar. Upplýsingar sem eru háðar þagnarskyldu en hafa verið gerðar opinberar á löglegan hátt hætta því að vera háðar þagnarskyldu frá og með slíkri birtingu. Þegar einstaklingur gagnrýnir stjórnvöld opinberlega fyrir afgreiðslu á máli hans er ekki hægt að líta á slík ummæli sem samþykki fyrir því að stjórnvöld megi í opinberum andsvörum fjalla um þau einkamálefni hans sem þagnarskylda ríkir um. Aftur á móti er stjórnvöldum heimilt í andsvörum sínum að vísa til upplýsinga sem umræddur einstaklingur hefur sjálfur kunngert opinberlega. Þetta er því vissulega mikilvægt.

Í greinargerðinni er líka bent á að í mörgum tilvikum geti slíkar upplýsingar verið mjög ófullkomnar og jafnvel villandi eða rangar og þá geta stjórnvöld ekki leiðrétt eða aukið við hinar þagnarskyldu upplýsingar í opinberri umræðu og er af þeim sökum oft ómögulegt að fjalla á málefnalegan hátt um stjórnsýslumál án þess að rjúfa þagnarskyldu. Því er oft ekki um annað að ræða fyrir hlutaðeigandi stjórnvald en að hafna því að tjá sig um umrædda gagnrýni með vísan til þagnarskyldu.

Við túlkum þetta augljóslega þröngt en mikilvægt er að mjög skýrt liggi fyrir hvernig nákvæmlega túlkunin á þeirri tilteknu grein eigi að vera og að vilji löggjafans birtist skýrt í því.