149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

stjórnsýslulög.

493. mál
[14:36]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á því að fagna frumvarpinu. Ég þakka fyrir alla þá góðu vinnu sem hefur farið í það og vil taka upp þráðinn þar sem frá var horfið fyrst við höfum smá tíma til að umræðna. Mér finnst sá punktur mjög áhugaverður sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á áðan og hæstv. forsætisráðherra svaraði, þ.e. um þagnarskylduna og það að ræða opinber málefni. Það hefur nefnilega oft staðið gagnrýninni umræðu, t.d. um aðgerðir lögreglu eða ríkissaksóknara eða hvern þann sem situr undir ámæli hins almenna borgara, fyrir þrifum að stjórnvöld þurfi ætíð að vísa í þagnarskyldu og geti ekki svarað. Ég held að upplifun margra sé að þau geri það jafnvel vísvitandi til að þurfa ekki að svara. Án þess að ég sé að segja að það sé rétt þá virðist upplifun margra vera að stjórnvöld svari ekki ávirðingum og neiti að taka þátt í umræðu um mikilvæg mannréttindamál eða hvernig staðið sé að ýmsum stjórnvaldsákvörðunum sem oft fela í sér valdbeitingu eða annað án þess að taka einu sinni til greina það sem kemur frá viðkomandi aðila og skýli sér alltaf á bak við þagnarskylduna til að komast frá umræðunni. Ef við höldum rétt á spöðunum getum við eflt lýðræðislega umræðu um akkúrat þetta, um valdboð og valdheimildir í samfélaginu, og vonandi sjáum við opinbera starfsmenn taka virkari þátt í slíkri umræðu.

Spurning mín til hæstv. ráðherra í fyrra andsvari snýr einna helst að öðru sem hún minntist á og það er um vernd uppljóstrara. Hún minnist á að það stæði til og að vinna væri í gangi. Nú er mikil umræða í gangi í alþjóðasamfélaginu um að núgildandi skilgreining á uppljóstrara sé aðeins of þröng. Það hefur aðeins verið sett í þann ramma að það sé í atvinnuskyni en talað er um að víkka þurfa skilgreininguna á (Forseti hringir.) þeim sem eru uppljóstrarar þannig að hún eigi ekki aðeins við um þá sem eru í atvinnusambandi við þá sem (Forseti hringir.) uppljóstrunin snýr að heldur jafnvel um einhverja eins og Báru Halldórsdóttur.