149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

stjórnsýslulög.

493. mál
[14:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Út af fyrra atriðinu sem hv. þingmaður nefndi, þegar opinberar stofnanir geta ekki svarað fyrir sig og vísa til þagnarskyldu — það getur verið mjög eðlilegt í vissum tilfellum, eins og ég nefndi hér áðan, t.d. ef um er að ræða upplýsingar um einkahagi tiltekins borgara — þá er kosturinn við þetta frumvarp, og ætti þá að auka traust á stofnunum samfélagsins, að við erum að samræma þessi ákvæði, taka ákvæði úr 80 lagabálkum og samræma þessar reglur þannig að við þurfum ekki að velkjast í vafa um að það kveði á um skýrar, gagnsæjar reglur um ólíkar stofnanir.

Hv. þingmaður nefndi vernd uppljóstrara. Eins og ég nefndi stuttlega áðan er unnið að slíku frumvarpi í nefndinni um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Tímaáætlunin er sú að nefndin ætlar að skila frumvarpi sínu fyrir 1. mars. Hún hefur skilað öllu sínu á áætluðum tíma hingað til og væntanlega verður frumvarpið í kjölfarið kynnt í opnu samráði. Ég þekki það ekki hvort nefndin er að vinna með skilgreiningu á uppljóstrurum í þeim anda sem hv. þingmaður vísaði til en ég get kannað það. Ég tel þó að þarna sé verið að horfa til tiltölulega breiðrar skilgreiningar eftir því sem ég hef haft spurnir af, þ.e. að þetta eigi við um alla, óháð almennum eða opinberum markaði og óháð því hvort um er að ræða upplýsingar sem ljóstrað er upp um innan vinnustaðar eða utan. En hvort það er nákvæmlega það sama og hv. þingmaður kemur inn á í þessari breiðari skilgreiningu sem hún vísaði í þá þekki ég það ekki en get kannað það.