149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

stjórnsýslulög.

493. mál
[14:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur fyrir svarið. Það er jákvætt að heyra að verið er að taka frekar breiða mynd á þetta. Ég veit að Evrópuráðsþingið, þar sem ég fer með formennsku í laga- og mannréttindanefndinni, er að skoða skilgreininguna út frá þessum breiða grunni og er að skoða það að útvíkka hana. Það væri mjög áhugavert og skemmtilegt að fá að deila því sem ég hef komist að á þeim vettvangi með nefndinni og fá að vera með í þessari vinnu, hvort sem það er hér á þinginu eða á fyrri stigum.

Þetta er svolítið heildstæður pakki sem hæstv. forsætisráðherra kemur með þótt hann komi í bútum inn í þingið. Og vinnan í kringum það og á bak við það finnst mér áhugaverð og forvitnileg. Ég hef velt því fyrir mér hvers vegna frumvarp sem snýr að því að breyta lögum um hvernig setja megi lögbann á fjölmiðla var ekki sett framar í forgangsröðunina. Nú eru það allt góð og gegn mál sem hafa komið hér um tjáningarfrelsið og að rýmka það, vernda betur upplýsingarétt, allt þetta, en það er nú samt svo að lögbann er sett á fjölmiðil og umfjöllun hans örfáum dögum fyrir kosningar. Við höfum fengið dómsúrskurð frá dómurum landsins um að það hafi getað haft áhrif á útkomu kosninga. Þetta er stórt lýðræðismál, stórt tjáningarfrelsismál, og ég skil ekki alveg hvers vegna þetta var sett í seinni hluta þessarar vinnu, seinni lotuna. Þannig er þetta sett í skipunarbréfið, þannig að nefndin er að sjálfsögðu bara að fylgja fyrirmælum sínum frá hæstv. forsætisráðherra. En ég velti fyrir mér hvers vegna það kom ekki fyrr, vegna þess að mér finnst áríðandi. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún sé ekki sammála mér um að koma í veg fyrir að það geti gerst aftur að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu stöðvi korteri fyrir kosningar fjölmiðlaumfjöllun um forsætisráðherra landsins.