149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

stjórnsýslulög.

493. mál
[14:45]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mig langar að fagna því ákaft að málið sé komið fram og fara stuttlega yfir nokkur atriði sem mér finnst mikilvæg í því.

Hæstv. forsætisráðherra skipaði mig á sínum tíma í nefnd, þegar hún var menntamálaráðherra, sem vann að málinu í upphafi og fékk Pál Hreinsson til að koma að því skrifa frumvarpið, sem kom mjög vel frá honum. Ég sé að búið er að gera nokkrar jákvæðar breytingar á því síðan þá, enda var það 2012 og hellingstími liðinn síðan.

Það er til fyrirmyndar að hæstv. forsætisráðherra leggi áherslu á að klára mál sem hafa beðið í stjórnkerfinu svona lengi og frábært að sú vinna haldi áfram í nefndinni sem hæstv. forsætisráðherra skipaði.

Til þess að skilja mikilvægi málsins verður maður að hafa í huga að það eru um eða yfir 160 ákvæði á mismunandi stöðum í lögum um þagnarskyldu opinberra starfsmanna, sem gerir það að verkum að afskaplega erfitt er fyrir opinbera starfsmenn að vita nákvæmlega hvaða ákvæði um þagnarskyldu þeir falla undir hverju sinni. Það er hreinlega auðveldast fyrir opinbera starfsmenn ganga út frá því að þeir muni, alveg sama hvað þeir segja, brjóta á einhvern hátt gegn þagnarskyldu. Það er mjög slæmt vegna þess að það dregur úr fólki þegar kemur að því að veita góðar upplýsingar til almennings, fjölmiðla og annarra eftir þörfum.

Með því að gera það sem er gert hér, að taka 80 mismunandi ákvæði um þagnarskyldu og samræma þau þvert í gegnum lagakerfið, er búið þannig um hlutina að auðveldara er fyrir opinbera starfsmenn sem og aðra að vita nákvæmlega hvar línan er dregin. Það gefur fólki hreinlega vissu fyrir því að það megi tjá upplýsingar á eðlilegan hátt. Þetta er því mikið framfaraskref fyrir gagnsæi og upplýsingafrelsi og eykur skýrleika og vissu.

Fyrir vikið eru rúmlega 80 önnur ákvæði eftir en þau snúa meira að tilteknum starfsgreinum þar sem þarf nákvæmari og sértækari þagnarskyldu. Það er hið besta mál. Auðvitað þurfum við að hlúa vel að þeim atriðum í framtíðinni en þetta frumvarp er í það minnsta ótrúlega mikið framfaraskref.

Ég hlakka til að fá önnur frumvörp til umræðu frá nefndinni og gleðst mikið yfir því að málið sé loksins komið á hreyfingu.