149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:12]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæta yfirferð yfir þessa skýrslu. Það sem skín í gegn í skýrslunni er að það sé einmitt orðið löngu tímabært að stíga skref í sölu bankanna. Ríkið er búið að vera með íslenska fjármálakerfið í fanginu núna í áratug. Það er í raun og veru búið að tala um það meira og minna allan þennan tíma að það sé óheppilegt eignafyrirkomulag, það dragi úr samkeppni á markaði, og það kemur skýrt fram í þessari skýrslu, og að það dragi úr samkeppni á markaði sem einkennist einmitt af ónógri samkeppni og fákeppni. Það eru í raun við, neytendur, sem borgum fyrir þennan skort á samkeppni, enda kemur líka mjög skýrt fram í skýrslunni að bankakerfið er dýrt, óhagkvæmt, og þjónar ekki grunnþörfum neytenda, heimila, sérstaklega ekki lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Á sama tíma boðar ríkisstjórnin aukna skattheimtu, m.a. í formi veggjalda, til þess að fjármagna mikilvægar innviðframkvæmdir. Maður hlýtur því að spyrja: Væri ekki e.t.v. heppilegra að hraða sölu í það minnsta drjúgs eignarhluta í öðrum bankanum? Mér sýnist að það þyrfti ekki mikið til til að fjármagna þær framkvæmdir sem talað er um, m.a. í samgönguáætlun.

Væri það ekki heppilegt að mati hæstv. ráðherra að fara að hraða þessari sölu? Hvenær má vænta þess? Því að það er búið að tala um þetta æðilengi og flokkur hæstv. ráðherra er búinn að vera í ríkisstjórn í sex ár af þeim tíu sem ríkið hefur haldið á bönkunum.

Í ljósi sífelldrar umræðu um að hér verði að klára að þróa regluverk, regluverk sem ráðherra fór ágætlega yfir að hefði tekið stakkaskiptum frá hruni og tæki í megindráttum mið af evrópsku regluverki á fjármálamarkaði, hvaða reglum þarf þá að breyta áður en hægt verður að stíga fyrstu skref til sölu á bönkunum?

En fyrst og síðast: Hvenær ætlum við að hefjast handa við að selja?