149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Vegna þess að hv. þingmaður bendir á að draga megi þá ályktun af skýrslunni að orðið sé mjög tímabært að ráðast í sölu á eignarhlut ríkisins, a.m.k. í öðrum bankanum, langar mig að rifja örstutt upp.

Við komum Bankasýslunni á fót þegar við endurfjármögnuðum Landsbankann. Þá sögðum við, í miðju hruninu: Þetta er tímabundin ráðstöfun, fimm ára ráðstöfun. Bankasýslan verður lögð niður eftir fimm ár þegar við höfum losað um eignarhlutinn. Það var enginn ágreiningur um það í þinginu. Menn sáu það þannig að verkefninu um að losa ríkið út úr Landsbankanum yrði lokið á fimm árum.

Má ég líka minna á að í 1. gr. neyðarlaganna stendur heimildin til að endurfjármagna Landsbankann, að setja skattfé í banka. Þetta var neyðarráðstöfun.

Má ég líka benda á að í lögum um sölu á eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum var strax á árinu 2012 opnað fyrir sölu á hlut ríkisins í þeim fjármálafyrirtækjum sem það þá hélt á, nema bara niður í 70% í Landsbankanum, þ.e. að ríkið ætti að halda eftir 70%. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lagði fram fjárlagafrumvarpið og gekk út frá því að það yrði selt úr Landsbankanum.

Við höfum því lengi verið á þessum stað en það eru ýmis atriði sem komið hafa í veg fyrir að við gætum þokað umræðunni eitthvað áfram, m.a. umræðunni um fjárfestingarbankastarfsemina, hvort við hefðum girt fyrir að fjárfestingarbankastarfsemi gæti dregið viðskiptabankastarfsemina með sér niður í öldurótið og sett aftur alla viðskiptabankastarfsemina og innlánin í uppnám. Ég tel að við séum núna með þessari hvítbók búin að svara því mjög rækilega. Ég trúi ekki öðru en að við getum náð samstöðu um það.

Spurt er hvað gera þurfi til undirbúnings. Ég tel að við þurfum að lækka skattana. Ég tel að við þurfum að endurhugsa gjaldtökuna á fjármálafyrirtækin og ljúka þessu með varnarlínuna út af fjárfestingarbankastarfseminni. Þetta tvennt er gríðarlega mikilvægt.

Að öðru leyti er þetta auðvitað hugsað þannig af hálfu ríkisstjórnarinnar að hlusta núna á þingið, (Forseti hringir.) að hlusta á umsagnir vegna hvítbókarinnar. Ég ætla að láta það verða mín lokaorð í fyrra andsvari að mér hefur þótt hafa tekist gríðarlega vel til með hvítbókina, að safna öllum þeim sjónarmiðum sem ræða þarf áður en það skref er tekið. En það er skammt undan í mínum huga.