149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að ég og hv. þingmaður séum sammála um að við hefðum mátt hreyfa okkur hraðar held ég að það sé engu að síður staðreynd að það hefur einhverra hluta vegna verið of auðvelt að kasta möl í tannhjólin þegar hreyfa hefur átt umræðu um þessi efni. Þar hefur verið of auðvelt að halda fram hlutum, t.d. um að enn skorti mikið á varðandi endurskoðun á regluverki, að við séum ekki enn komin með lausn á þáttum sem varða fjárfestingarbankastarfsemi og annað þess háttar. Það er upp úr þeirri umræðu sem hvítbókin sprettur í raun, hugmyndafræðin um að safna saman öllum þessum ólíku sjónarhornum og búa til grundvöll fyrir málefnalega umræðu um raunverulega stöðu og þær raunverulegu breytingar sem átt hafa sér stað.

Ég tel að tekist hafi vel til og ber að þakka höfundum hvítbókarinnar fyrir vel unnið verk. Ég vonast til að þessi bók geti orðið grundvöllur fyrir ákvarðanatöku sem kemur í beinu framhaldi af umræðu í þinginu um þessi mál. Ég hef hér lýst því (Forseti hringir.) að ég sjái hlutina gerast þannig að Íslandsbanki eigi að vera í forgrunni til að byrja með. Ég held að það sé óskynsamlegt að vera með tvo banka til sölu í einu. Við eigum að láta reyna á kosti sem við höfum fyrir Íslandsbanka og meta síðan stöðuna í framhaldinu.