149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Í hvítbókinni koma fram margar góðar upplýsingar sem mikilvægt er að nýta í umræðunni sem fram undan er. Þar koma m.a. fram niðurstöður könnunar sem höfundar skýrslunnar létu gera. Þegar fólk var spurt hvað það væri sem því dytti helst í hug þegar það ræddi íslenska bankakerfið voru orðin sem oftast komu upp græðgi og spilling, en það óskaði sér sanngjarns og trausts kerfis. En núna er traustið ekki til staðar.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé mikilvægt að við endurskipuleggjum kerfið, við segjum til um það hvernig við sjáum það fyrir okkur sem sanngjarnt og traust áður en við förum að selja hluta úr því. Það eru ekki nema 14%, samkvæmt þessari könnun sem kynnt er í hvítbókinni, sem vilja selja bankakerfið. Umræðan frá því hún kom fram, hefur hins vegar öll verið um sölu á kerfinu, en ekki um hvernig við viljum sjá það til framtíðar. Við eigum eftir að innleiða hér Evróputilskipanir sem aðrar Evrópuþjóðir eru búnar að innleiða. Þær eru margar hverjar mjög framúrstefnulegar, getum við sagt. Tæknin er á fleygiferð. Við þurfum einhvern veginn að sjá það fyrir okkur hvernig bankakerfið geti verið hagstætt fyrir neytendur og að allt sem við gerum verði til að bæta hag neytenda.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann getur verið viss um það að ef við lækkum skattana verði það til þess að neytendur hagnist.