149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:28]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Færð hafa verið þrenn rök fyrir því að selja eignarhlut ríkisins í bönkunum. Ein rök eru samkeppni og þar er vísað í nákvæmlega sömu rök og notuð voru árið 2001, nánast orðrétt á köflum. Ég veit ekki hvort það þurfi að ræða mikið meira um það.

Önnur rökin eru áhætta. Þá má svo sem nefna að elsti banki heims hefur starfað síðan 1472 og í núverandi mynd frá 1624 þannig að það er ekki lögmál að bankakerfi þurfi að hrynja. En auðvitað skiptir máli hvernig regluverkið er. Auðvitað er fullt af bönkum sem starfað hafa mjög lengi. Þá ætti áherslan náttúrlega að vera á það að vera með mikið regluverk.

En þriðju rökin sem gefin hafa verið er tækifæriskostnaður. Mér þykir nokkuð áhugavert að tækifæriskostnaður sé gefinn sem ástæða í ljósi þess að eigið fé þessara banka er um 420 milljarðar í dag. Sami hæstv. fjármálaráðherra og talað hefur fyrir sölu bankanna hefur einnig talað fyrir því að koma á þjóðarsjóði sem á, þegar hann er fullfjármagnaður, að hljóða upp á um 500 milljarða til eða frá.

Þá spyr ég: Er ekki eðlilegt að hafna öllu tali um tækifæriskostnað sem skýringu á nauðsyn þess að selja bankana nema útskýrt verði á mjög sannfærandi hátt hvernig hlutabréf í fyrirtækjum á Íslandi, þ.e. bönkunum, binda fjármagn á hátt sem grefur meira undan tækifærum ríkissjóðs til fjárfestingar og annarra verka en hlutabréf í fyrirtækjum erlendis?

Mig langar hreinlega vita það. Er einhvern veginn öðruvísi tækifæriskostnaður sem felst í þessum 420 milljörðum í bönkunum og þessum 500 milljörðum í væntanlegum þjóðarsjóði?