149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir ekki ein rök fyrir því að ríkið eigi að reka banka. Hvernig væri að koma upp og verja virkilega ríkiseignina, ef menn koma og lýsa efasemdum um að ríkið fari út úr fjármálastarfsemi? (SMc: Það er ekki mitt hlutverk.) — Nei, það er auðvitað ekki hlutverk hv. þingmanns, en ef hann ætlar að nefna þau atriði sem honum þykja vera ófullnægjandi til rökstuðnings á því að losa um eignarhald ríkisins verður hann að taka stöðu með eignarhaldi ríkisins. Ella er þetta léleg framsetning á málstaðnum sem grefur undan trúverðugleika hv. þingmanns. Ef hann treystir sér ekki til að koma hérna upp og verja virkilega ríkiseignina á öllu fjármálakerfinu eða bróðurparti þess, langt umfram það sem gildir annars staðar, verður það bara að vera hans mál. (Gripið fram í.)

En þetta eru góð rök sem ég hef tiltekið sem varða samkeppni á markaði. Það er óheilbrigt að ríkið fari með fullt eignarhald á tveimur stórum bönkum og sé allsráðandi í mikilvægum hluta bankakerfisins á Íslandi. Það er sömuleiðis alveg skýrt, þó að hv. þingmaður geti nefnt banka sem hafi starfað að grunni frá fjórtán hundruð og eitthvað, að það er áhætta í því fólgin að reka fjármálafyrirtæki. Það birtist okkur út um allan heim fyrir tíu árum síðan. Það hefur birst okkur margoft, bæði í einkaeignarhaldi og í ríkiseignarhaldi á Íslandi og það er svo sannarlega fórnarkostnaður í því að geyma fjármuni þarna.

Að nefna þjóðarsjóðinn í þessu samhengi kallar auðvitað á umræðu um þá hugmyndafræði sem þar er að baki. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað felst líka í því ákveðinn fórnarkostnaður. Menn þurfa að gera upp á milli valkosta sem menn hafa í höndunum þegar þeir taka ákvörðun um að koma á fót slíkum sjóði. En þar er verið að hugsa til mjög langrar framtíðar. Ég er alveg tilbúinn í sérstaka umræðu um það mál, sem liggur reyndar fyrir þinginu og snýst fyrst og fremst um hugmyndafræðina, um að byggja varnir til lengri tíma fyrir þjóðina, lendi hún í meiri háttar áföllum. Þeirri hugmynd fylgir þá (Forseti hringir.) að fjalla um fjármögnun slíkra áfallavarna. Þar koma margar leiðir til greina og er engin í sjálfu sér eitthvað mikið betri en önnur.