149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:33]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil satt að segja ekki af hverju hæstv. fjármálaráðherra er að æsa sig. Ég er að sjálfsögðu bara að fara yfir þau rök sem lögð hafa verið fram, sem eru léleg. Þetta eru léleg rök. Þar af leiðandi er auðvelt að hnekkja þeim.

Ég mun koma með mín rök á eftir í ræðu um það bæði af hverju ég er hlynntur því að við förum á ákveðinn en mjög varfærinn hátt í sölu á einhverjum hluta bankanna, vegna þess að ég er alveg hlynntur því, en líka af hverju við eigum alls ekki að gera það með þeim hætti sem talað hefur verið um af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Þannig að mér finnst ekki vera ástæða til þess að fara með þetta í einhvern æsing. Ég var að reyna að fá hæstv. ráðherra til að útskýra hvers vegna rökin eru svona léleg sem hann leggur fram fyrir því að fara í sölu bankanna með þeim hætti sem talað hefur verið fyrir. Því að það eru léleg rök: af samkeppnisástæðum. Af samkeppnisástæðum? Samkeppnin jókst ekki sérstaklega mikið eftir einkavæðingu bankanna síðast. Það var eitthvert smotterí en ekki þannig að það væru rök fyrir að hætta okkur út á þær slóðir sem við fórum á þeim tíma.

Þannig að ég spyr hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) að lokum: Eru til einhver góð rök fyrir aðferð hans og nálgun á sölu bankanna að þessu sinni?