149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nú má vera að sú sem hér stendur hafi alveg misskilið tilgang umræðunnar, tilgang skýrslugerðarinnar, því að ég heyri ekki betur en að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sé svo æstur og ákafur í að selja bankakerfið sem allra fyrst að hann gefi sér ekki tíma til að hlusta á þau rök sem borin eru fram eða þær spurningar sem bornar eru fram í andsvörum, heldur hendi sér beina leið í manninn. Ég varð fyrir vonbrigðum með það vegna þess að ég var að vona að skýrslan gæti verið umræðugrundvöllur fyrir það hvernig við viljum sjá bankakerfið til framtíðar, sem er bankakerfi fyrir fólkið í landinu, fyrir fyrirtækin í landinu, fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki en ekki bankakerfi fyrir sjálft sig.

Það er margt gott í skýrslunni og hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir skuldagrunninn, yfir hugmyndina um að aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Auðvitað þurfum við að skoða þá hugmynd vel og skoða hvernig það sjálfstæða félag er þá hugsað sem á að vera með fjárfestingarbankastarfsemina, hvort Seðlabankinn sé með þrautavaralán fyrir þann hluta starfseminnar o.s.frv. Við förum bara í gegnum það og ákveðum hvernig við myndum vilja sjá það leggjast og af hverju við viljum ekki algerlega skipta þarna á milli.

Skýrsluhöfundar leggja líka mjög ríka áherslu á að það þurfi að vera skýr eigendastefna og að ríkið þurfi að setja mjög ákveðið niður skilgreiningu á því til hvers er ætlast af bankakerfinu varðandi samfélagslega ábyrgð. Þó að skýrsluhöfundar mæli síðan með því að eignarhlutir séu seldir er þetta eitthvað sem þeir telja að gera þurfi áður en farið er í söluna.

Mér finnst mjög athyglisverð sú könnun sem gerð var meðal almennings og birt er í skýrslunni. Einn höfundur skýrslunnar var í viðtali í Silfrinu á sunnudaginn og sagði að eftir að þau sáu niðurstöðu könnunarinnar hefðu þau svolítið breytt um kúrs þegar þau voru að semja skýrsluna og dregið fram áhersluatriði því að í ljós kom að ekkert traust er á bankakerfinu eins og það er og gera þarf ákveðna hluti til að fólkið í landinu fái aftur traust á því. Það skiptir bankana mjög miklu máli að almenningur treysti þeim svo að þeir vilji versla við þá.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vera sallaróleg. Við þurfum samt sem áður að vera á tánum og horfa á tæknina. Nú býður t.d. Google upp á greiðslumiðlun, Facebook, Amazon og fleiri fjártæknifyrirtæki sem munu sannarlega hafa áhrif á rekstur bankanna með einhverjum hætti. Auðvitað verða bankarnir að horfast í augu við þær breytingar og finna leiðir til að lifa af og þjóna viðskiptavinum sínum á samkeppnishæfum kjörum við fjártæknifyrirtækin. Það þarf líka að horfa á hvert þau stefna. Við eigum ekki að byrja á að fara í eitthvert söluferli áður en við erum búin að segja hvernig við viljum hafa kerfið okkar til framtíðar.

En spurningin er hvernig bankar eru sem eru fyrir fólk og venjuleg fyrirtæki. Í hvaða átt mun tæknin færa bankakerfið og hve mikið hafa stjórnvöld um það að segja?

Nýrri tilskipun Evrópusambandsins um breytingar á bankakerfinu hefur verið líkt við breytingar sem urðu á fjarskiptamarkaði fyrir 20 árum. Þar er allt á fleygiferð, alls staðar í heiminum. Stjórnvöld verða að tryggja að neytendur hagnist með breytingunum og að þjónustan batni.

Ræða hagfræðingsins John Kays á fundi Samfylkingarinnar sem haldin var á Grand hótel 24. apríl 2016 og bók hans, Other Peoples Money, sem gefin var út 2015, eiga sannarlega erindi við okkur í umræðunni um framtíðarskipan fjármálakerfisins hér á landi. Nú þegar ríkið er með mest allt fjármálakerfið í fanginu er tækifæri til að breyta því þannig að það þjóni samfélaginu en ekki að mestu sjálfu sér. John Kay bendir á í bók sinni að bankar úti um allan heim skipti aðallega hver við annan. Í stað traustra fjárfestinga leggi þeir undir, veðji og taki áhættu sem skellur á almenningi ef illa fer, eins og dæmin sanna. Þess vegna er einmitt svo mikilvægt að horfa á fjárfestingarbankastarfsemina og viðskiptabankastarfsemina og vera með girðingar og helst aðskilnað þar á milli. Það er sjálfsagt að vera með fjárfestingarbankastarfsemi sem tekur áhættu og að fólk geti valið að versla við slík fyrirtæki, en það verður að vera annar valkostur á móti sem gerir minni arðsemiskröfu, tekur ekki eins mikla áhættu.

John Kay vill að bankarnir sjái um greiðslumiðlun, haldi utan um fjármál fólks frá vöggu til grafar, ávaxti sparnaðinn og lágmarki áhættu. Við eigum að einbeita okkur að uppbyggingu kerfisins, starfseminni og þörfum viðskiptavinanna og aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi þannig að innlán verði ekki notuð í áhættusamar fjárfestingar. Ég mæli með því að við lítum til slíkra hluta og tökum mið af neytendavernd og því hvernig hægt sé að þjónusta almenning á ódýran hátt við t.d. greiðslumiðlun og þá sjálfsögðu þjónustu sem almenningur þarfnast af bönkunum.

Forseti. Ég er búin að nefna John Kay og vil nefna annan mann þegar við horfum til skipulagningar kerfisins til framtíðar, sem er Frosti Sigurjónsson. Hann hefur talað fyrir samfélagsbönkum og vill líta til Þýskalands eftir fyrirmyndum. Grundvallarmunurinn á samfélagsbanka og einkabanka er hvert hagnaðurinn fer. Hjá einkabönkum fer hagnaðurinn til hluthafa. Þeir vilja oftast fá mikinn hagnað og það fljótt. Það er ekki einu sinni víst að þeir búi í sama landi og bankinn starfar í og þá hafa þeir engin tengsl við samfélagið þar sem bankinn starfar, þess vegna hefur nærsamfélagið lítil áhrif á ákvarðanir þeirra. Þegar talað er um samfélagsbanka þá stundar hann nærþjónustu, hann þjónustar heimilin, lítil og meðalstór fyrirtæki og gerir ekki eins ríka arðsemiskröfu og einkabankarnir. Mér finnst að við eigum að skoða þær hugmyndir mjög vel.

Tíminn líður og ég er ekki enn komin í að ræða sérstaklega tillögur hvítbókarinnar sem eru settar niður í nokkuð mörgum liðum, en ég vil benda á ágætisumsagnir sem komnar eru inn á samráðsvefinn. Til dæmis fer dr. Ásgeir Brynjar Torfason mjög vel yfir hverja athugasemd fyrir sig á mjög upplýsandi og skýran hátt. Það held ég að við ættum að skoða vel þegar við ákveðum hvernig við vinnum úr skýrslunni.

Forseti. Að lokum er talað um að lækka þurfi skatta sem settir voru á til að koma til móts við það tjón sem samfélagið varð fyrir við bankahrunið. Ég tel enga ástæðu til að lækka þá skatta strax. Við berum enn þá það tjón. Við getum bara horft á hvað er verið að tala um með sérstökum vegasköttum til að bæta upp vegakerfi sem hefur verið vanrækt frá hruni. Það er alveg sama hvað hver segir, við getum ekki verið viss um að það að lækka skattana verði ekki til þess að hagnaður eigenda bankanna verði meiri. Getum við verið viss um að sú lækkun (Forseti hringir.) gangi beint til neytenda? Ef svo er, er ég til í að skoða það. En því miður, herra forseti, getum við ekki verið viss um það.