149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að hv. þingmaður sjái ekki tækifæri til að lækka skatta þrátt fyrir að það sé mjög vel dregið fram í skýrslunni að skattar á fjármálafyrirtæki á Íslandi eru margfaldir á við skatta á fjármálafyrirtæki í öðrum löndum. Á sama tíma og við erum með miklu meiri og hærri skatta, meiri álagningu opinberra gjalda á bankana, þá er vaxtamunur meiri á Íslandi. En þrátt fyrir þessi sterku rök fyrir lækkun skatta þá sér hv. þingmaður ekki tækifærið. Þetta finnst mér undarlegt, en það kemur mér kannski ekki mikið á óvart miðað við skattstefnu Samfylkingarinnar.

Hér er komið inn á fjárfestingarbankastarfsemina. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Telur hv. þingmaður ekki að sú varnarlína sem lögð er til í skýrslunni í þessari hvítbók um fjárfestingarbankastarfsemina, að það verði dregin varnarlína við ákveðin mörk og fari hlutfall fjárfestingarbankastarfsemi af heildarstarfsemi bankans yfir þessi mörk þá verði bankanum gert að koma sér aftur niður fyrir viðmiðið eða varnarlínuna eða að aðskilja reksturinn, sé góð tillaga sem eigi að svara áhyggjum manna af fjárfestingarbankastarfsemi? Þetta skiptir mjög miklu máli í umræðunni.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann sömuleiðis að öðru varðandi samfélagsbankann: Vill hv. þingmaður breyta stefnunni varðandi rekstur Landsbankans eða Íslandsbanka og gera viðkomandi banka að samfélagsbanka í framtíðinni? Er verið að tala um það hér að annar hvor þessara banka, sem eru því sem næst í fullri eigu ríkisins, eða báðir verði gerðir að samfélagsbanka? Er það hugmyndin?