149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur þeirri sem hér stendur ekki á óvart að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins vilji nú hámarka arðsemi auðmanna eins og mér heyrist hann vilja gera með því að fella niður skattana á banka þannig að þeir verði fýsilegri til eignar fyrir auðmenn. En það er bara alls ekki víst að lækkun skatta á banka skili sér í minni vaxtamun heldur auki hún aðeins arðsemi eigendanna. Þannig er það bara. Hvaða skattar eru þetta? Þetta eru skattar á skuldir bankanna, sem er stærsti hlutinn. Þetta er skattur á hagnað, skattur á laun og svo er skattur sem rennur í tryggingarsjóð fyrir innstæðueigendur. Skattar voru settir hér á til að mæta tjóni samfélagsins, vegna þess að bankarnir féllu og tóku okkur með í fallinu. Það er engin ástæða til að taka þessa skatta af fyrr en við getum sagt að það sé búið að bæta með einhverjum hætti fyrir það tjón.

Eins og ég sagði áðan í ræðu minni þá erum við enn að glíma við það að innviðir eru í slæmu ástandi eftir hrun, að vísu að hluta til vegna þess að stjórnvöld sem tóku við árið 2013, eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kannast við, lækkuðu skatta frekar en að bæta í innviðina.

Jú, þessi hugmynd um fjárfestingarbankastarfsemina og viðskiptabankastarfsemina er ágæt, en ég vil skoða hana. Ég vil skoða hvað sérstakt félag þýðir, hvað þetta viðmið þýðir nákvæmlega og hver hleypur (Forseti hringir.) undir bagga ef illa fer með þessa hlið bankastarfseminnar. Ég mun svara um samfélagsbanka í næsta andsvari.