149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað með miklum ólíkindum að því sé stillt þannig upp að ég telji mikilvægt að lækka bankaskatt á fjármálafyrirtæki til að tryggja auðmönnum betri ávöxtun eigna sinna.

Staðreyndin er þessi: Þegar við fellum niður þennan bankaskatt þá eru þegar komin fram mjög sterk rök fyrir því að við höfum gert bankana í öllu rekstrarlegu tilliti betur samkeppnishæfa við banka af sambærilegri stærð og getum þannig aukið skilvirkni í bankakerfinu sem á að koma neytendum til góðs. Fyrir hvern milljarð sem við tökum í bankaskatt af fjármálafyrirtækjum má sömuleiðis hafa væntingar um að við fáum allt að 10 milljarða í hærra söluvirði í fjármálafyrirtækjum. Við erum að ræða þetta í samhengi við að mögulega selja banka og draga úr eignarhaldi ríkisins. Það er út af fyrir sig rétt að það getur að hluta til komið eigendum banka betur að skattar séu lægri, en það eru sterk rök fyrir því að vaxtamunur í landinu muni minnka við það að taka skattinn af. Það er engum vafa undirorpið að hærri skattar leiða til lægra söluverðs á eignarhlut ríkisins. Um þetta ætti að vera auðvelt að fá álit sérfræðinga.

Ég hlakka til að heyra með samfélagsbankahugmyndina, sem hv. þingmaður virðist vera spennt fyrir, og sérstaklega hvort það standi þá til að breyta eðli þessarar fjármálastarfsemi, Íslandsbanka eða Landsbanka, breyta þeim í samfélagsbanka og hvaða arðsemishugmyndir eigi þá að vera uppi vegna þess eigin fjár sem þar er bundið. Við erum með meira en 100 milljarða í hvorum banka, yfir 200 milljarða í Landsbankanum. Það verður að taka þetta í einhverju samhengi. Auðvitað er hægt að segja: Samfélagsbanki og samfélagsbanki, (Forseti hringir.) það eru mismunandi útfærslur á því. En í grunninn var verið að vísa til þess að menn ættu að hætta að hafa arðsemi af eigin fé. (Forseti hringir.) Það þarf aðeins að botna svona hugmyndafræði.