149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Já, það er svolítið stór krafa sett á mig að útskýra á tveimur mínútum allt varðandi arðsemi og guð má vita hvað. En ég skal segja hvað ég á við þegar ég tala um að einn banki gæti verið samfélagsbanki.

Við í Samfylkingunni höfum horft til Landsbankans. Það er einfaldlega til þess að reyna að tryggja einhvers konar samkeppni á þeim fákeppnismarkaði sem bankakerfið á Íslandi starfar í. Það er gott að hafa fjártæknifyrirtæki sem sjá um greiðslumiðlun, en það er líka gott að hafa annan valkost sem væri innan bankakerfisins. Það er gott að hafa fjárfestingarbanka sem fólk sem vill taka mikla áhættu getur verslað við, en það er líka gott að hafa samfélagsbanka sem gerir lægri arðsemiskröfu, sem þjónar sérstaklega heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem í dag bera í rauninni uppi bankakerfið og bera hæsta kostnaðinn af því eins og það er í dag. Þess vegna eigum við að horfa til þess að við séum með banka sem er hugsaður út frá þörfum almennings en ekki út frá þörfum eigendanna. Arðsemiskrafan sé nægileg til að veita góða og stöðuga þjónustu fyrir heimilin í landinu, fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Þetta væri ein stoðin í einhvers konar flóru sem væri eins fjölbreytt og mögulegt er á þessum litla markaði. En auðvitað þyrftum við að setjast niður og sjá þetta allt saman fyrir okkur og gera það almennilega og einbeita okkur að því (Forseti hringir.) áður en við förum að tala um sölu. Tölum um hvernig við viljum hafa kerfið til framtíðar, (Forseti hringir.) en ekki vera svo brjálæðislega æst í að selja hluti ríkisins í bönkunum að við getum ekki gefið okkur tíma til að skoða framtíðarkerfið.