149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir yfirferð hans hér. Við lestur þessarar hvítbókar ríkisstjórnarinnar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sé ég ekki þá framtíðarsýn sem er verið að teikna upp. Bókin er að mínu mati frekar samantekt af alls konar hugmyndum en einhver sýn.

Hún er þó gagnleg, svo langt sem hún nær. Hún er ágætlega sett upp og þægileg aflestrar. Þeir sem setja upp fjárlagafrumvarpið og fylgirit þess til prentunar ættu að taka þessa uppsetningu sér til fyrirmyndar að mínu mati.

Með bókinni er einnig fylgirit með góðri myndrænni framsetningu. Þar er að finna niðurstöður Gallup-könnunar á bls. 33 um viðhorf Íslendinga gagnvart ríkinu sem eiganda bankanna. Þetta er athyglisverð könnun sem sýnir að sex af hverjum tíu eru jákvæðir gagnvart þeirri hugmynd að ríkið haldi eftir hlut í viðskiptabanka til lengri tíma litið.

Þarna er að finna afgerandi skilaboð sem stjórnvöld verða að horfa til þegar breytingar verða á eignarhaldinu.

Á bls. 35 í fylgiritinu er einnig samanburður á eigendastefnu íslenska ríkisins á því norska. Það er athyglisverður samanburður og sýnir að Norðmenn búa við mjög strangar eigendareglur þar sem tryggt er neitunarvald norska ríkisins sem hægt er að grípa til ef sýnt þykir að stefnt sé að ákvörðunum sem ganga gegn almannahag. Að sjálfsögðu afar mikilvægt.

Í hvítbókinni er mælt með því að selja alls um 82% af eignarhlut ríkisins í bönkunum. Það þýðir að verið er að selja um helming alls bankakerfis landsins. Gleymum því ekki að eigið fé þessara tveggja banka er 420 milljarðar, eða í kringum það að mig minnir.

Þarna eru því augljósar hættur á ferðinni sem geta orðið á vegi verði farið of geyst. Svo mikla breytingu má alls ekki gera með hraði. Ég tel reyndar að ekki eigi að selja svo stóran hlut og það er alls kostar óvíst hvort kaupendur séu yfir höfuð að svo stórum hlut, nema með miklum afslætti og þá er nú betra að bíða með hlutina.

Því þarf að fara hægt í eignasölu bankanna og gefa þarf góðan tíma til umræðu um stefnumörkunina og til undirbúnings áður en söluferlið hefst.

Ég tel því afar mikilvægt að hugað verði vel að því hvernig bankarnir verði seldir, bæði Íslandsbanki og Landsbankinn.

Hvað varðar Landsbankann tel ég rétt að skoða hvort ekki eigi að nota tækifærið við söluna og endurreisa sparisjóðakerfið, aðskilja fjárfestingarbanka og viðskiptabanka og bjóða upp á samfélagslega fjármögnun um allt land. Sparisjóðirnir hafa haft mikil og jákvæð áhrif á samfélagslega framþróun hér á landi, eins og við þekkjum, með fjármálalegri milligöngu. Ég held að óhætt sé að fullyrða að þeir hafi átt stóran þátt í bættum lífsskilyrðum almennings. Markmið sparisjóðanna þegar þeir voru stofnaðir var að stuðla að auknum sparnaði meðal almennings, stuðla að efnahagslegum framförum, stöðugu aðgengi að fjármagni og vinna að félagslegum verkefnum.

Einnig tel ég koma vel til greina við sölu Landsbankans að úthluta hlut til almennings sem endurgjaldi fyrir þátttöku hans í að taka á sig byrðar hrunsins. Almenningur tók á sig miklar byrðar eins og við vitum. Með þessu værum við að skila til baka hluta af því sem tekið var af almenningi og er það í samræmi við samfélagslegt mikilvægi kerfisins og hugmyndir Miðflokksins í þessum efnum.

Síðan að lokum hvað Landsbankann varðar vil ég koma því að ég tel það algerlega tilgangslaust fyrir eiganda bankans, sem er ríkissjóður, að byggð verði einhvers konar bankahöll upp á 9 milljarða við höfnina. Ríkisstjórnin á að láta stöðva það verkefni strax. Ég spyr: Hvar stendur forsætisráðherra í því máli? Lítið hefur heyrst af því. Auk þess er fyrirhuguð bygging, fagurfræðilega séð, algerlega misheppnuð að mínum dómi.

Herra forseti. Á bls. 147 í bókinni er rætt um mat á áhrifum af lækkun rekstrarkostnaðar hjá viðskiptabönkunum. Tekið er dæmi um að fækka starfsmönnum um 20%, úr 2.725 stöðugildum niður í 2.180. Með því eigi að nást fram sparnaður upp á 7,6 milljarða. Höfundar bókarinnar telja að þetta muni skila sér í minni vaxtamun eða aukinni arðsemi eigenda. Ég leyfi mér að efast stórlega um að þetta muni skila sér í minni vaxtamun. Miklu fremur tel ég að slík hagræðing sé fyrst og fremst hugsuð til að auka arðsemi. Þannig hefur íslenska bankakerfið einfaldlega verið. Neytandinn hefur aldrei verið í fyrsta sæti.

Undanfarin ár hefur útibúum viðskiptabankanna fækkað verulega. Í árslok 2008 voru 146 útibú viðskiptabanka starfrækt, en þeim hefur fækkað jafnt og þétt niður í 84 útibú eins og þau eru nú. Mikil fækkun hefur átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu undanfarin sex ár, úr 37 útibúum í 21. Þá hefur útibúum haldið áfram að fækka undanfarin ár utan höfuðborgarsvæðisins en þau voru 99 talsins árið 2008 en eru nú 63.

Hefur einhver orðið var við það að fjármálaþjónusta hafi lækkað á þessu tímabili?

Boðuð hefur verið frekari hagræðing innan bankanna þrátt fyrir þá staðreynd að fjöldi starfsmanna sé nú kominn niður fyrir þann fjölda sem starfaði að meðaltali hjá samningsaðilum Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja á árunum 1985–2005. Tækni og sjálfvirkni spila þar vissulega hlutverk í rekstri fjármálafyrirtækjanna, en árið 2007 voru starfsmenn sem unnu við viðskiptabankastarfsemi bankanna 4.326 talsins; 1.450 hjá Íslandsbanka, 1.076 hjá Kaupþingi og 1.200 hjá Íslandsbanka og 600 hjá sparisjóðunum. Í dag er heildarfjöldi þeirra sem starfa í viðskiptabankastarfsemi bankanna orðinn 2.850 starfsmenn; 1.000 hjá Landsbankanum, 900 hjá Arion banka og 900 hjá Íslandsbanka og 50 hjá sparisjóðunum.

Við sjáum því að hér hefur orðið veruleg breyting. Það sést vel á þessum tölum að fækkunin hefur verið gríðarleg á undanförnum árum. Ég sakna þess að ekki skuli vera minnst á þetta í hvítbókinni, og svokallaða hagræðingu, náttúrlega, í því sambandi.

Það er mikilvægt að stjórnendur og stjórnvöld geri sér grein fyrir þeirri hagræðingu sem þegar hefur átt sér stað áður en ríkari krafa er gerð um enn frekari hagræðingu. Gleymum því ekki að að baki þessum tölum eru starfsmenn með fjölskyldur og margir hafa misst vinnuna í bönkunum á undanförnum árum vegna kröfu um hagræðingu. Ekki yrðu ríkisstarfsmenn sáttir, veit ég, ef stöðugt væri verið að hamra á því að það þyrfti að hagræða og fækka ríkisstarfsmönnum.

Þvert á móti hefur ríkisstjórnin, með fjármálaráðherra komandi úr Sjálfstæðisflokknum, verið að bæta stöðugt í ríkisbáknið.

Á bls. 172 segir enn fremur að aukin hagræðing sé nauðsynleg til að auka arðsemi reglulegrar starfsemi bankanna sem og að bæta kjör almennings. Ég rakti það hversu mikil fækkun starfsfólks hefur orðið á undanförnum árum en ég sé þess hvergi merki að þetta hafi bætt vaxtakjör til almennings. Það er ágalli á þessari bók, að mínu mati, að setja svona fram og geta ekki sýnt fram á það svart á hvítu að hagræðing í bankakerfinu skili sér til almennings. Við vitum öll að hún hefur ekki gert það hingað til og það er ekkert sem tryggir að svo verði.

Á bls. 157 í hvítbókinni er fjallað um sértæka skatta og opinber gjöld á fjármálafyrirtæki. Nokkuð er hamrað á því að bankaskatturinn sé mikið óhagræði. Það er reyndar minnst á fleiri gjöld, m.a. eftirlitsgjald til Fjármálaeftirlitsins, en þess ekki getið að gjaldið lækkaði nú um áramótin þegar gerð var breyting á lögum í tengslum við fjárlög ríkisstjórnarinnar. Það er alveg ljóst að ríkisstjórninni er sérstaklega umhugað um að lækka álögur á banka og fjármálafyrirtæki. Það er að sjálfsögðu mjög sérstakt í ljósi þess að Vinstri grænir fara með forsæti í þessari ríkisstjórn.

Síðan er á bls. 168 sagt að lækkun sértækra skatta á bankakerfið sé skýrasta tækifæri ríkisins til að draga úr vaxtamun. Það er að sjálfsögðu auðvelt að kenna öðrum um þann háa vaxtamun sem við búum við á Íslandi, allt sé þetta ríkisvaldinu að kenna vegna þess að það skattleggur bankanna svo mikið.

En hvað þá með atvinnulífið sem hefur búið við hátt tryggingagjald frá hruni? Þrátt fyrir það er atvinnustigið hátt. Ég tel hins vegar brýnt að tryggingagjaldið lækki enn frekar og flutti Miðflokkurinn m.a. breytingartillögu þess efnis við fjárlög, sem var því miður felld af ríkisstjórninni.

Fullyrt er að skattar á bankakerfið eigi þátt í háum kostnaði neytenda. Mér finnst vanta frekari rök fyrir þeim staðhæfingum, herra forseti.

Tímans vegna verð ég að koma aftur inn í umræðuna á eftir.