149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:06]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst áhugavert það sem hv. þingmaður kom inn á varðandi að engin trygging væri fyrir því að lækkun bankaskatts myndi skila sér til neytenda. Það er vandamál sem er viðvarandi í pólitíkinni, til að mynda hefur oft verið talað um að lækkanir á virðisaukaskatti skili sér illa til neytenda.

Það er alveg rétt sem sagt er í hvítbókinni, að skattar á bankakerfið á Íslandi séu umtalsvert hærri en í nágrannalöndunum og ástæða til að lækka þá. En mig langar að fá hv. þingmann til að ræða aðeins við mig um hvort og hvernig við gætum reynt að stilla hlutunum þannig upp að lækkun á sértækum bankasköttum myndi skila sér til neytenda með skilvirkum og áreiðanlegum hætti. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga. Ef við horfum til þess hvernig vaxtastigið er á Íslandi er ekki óalgengt að fólk sé með neytendalán með 6–7% vöxtum, þó lægri með verðtryggingu en auðvitað leggst öll verðbólga ofan á. Til samanburðar heyrði ég á dögunum af húsnæðisláni í Bretlandi sem var með vexti upp á í kringum 1,5%, sem er mun nær því sem við ættum að geta kallað eðlilegt. Svo má náttúrlega ræða fram og til baka hvort það sé óeðlilega lágt eða hvað.

Í það minnsta er ljóst að þetta er allt of hátt á Íslandi. Hvernig myndi hv. þingmaður nálgast það að tryggja að lækkun á sértækum bankasköttum komist til neytenda?