149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:15]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er að verða einhver óskiljanlegasta umræða sem ég hef orðið vitni að. Hér tala menn um að bankaskattur hafi hugsanlega engin áhrif á vexti, en menn eru mjög uppteknar af því að lækka vexti. Menn hafa jafnvel haldið því fram að vextir hafi ekkert lækkað, eigendur taki þetta bara til sín. Nú hafa vextir jafnt og þétt lækkað og það eru ýmsar ástæður fyrir því. Það sem skiptir máli er auðvitað hvernig staða þjóðarbúsins er og vaxtaákvarðanir Seðlabankans. Hvernig eru lánskjör bankanna? Allt hefur þetta áhrif á vextina og líka bankaskattur. Ef menn hafa einhvern áhuga á því að reyna að lækka vexti eða minnka vaxtamun er rökrétt að draga úr þessum skatti, hann hlýtur að hafa áhrif á samkeppni.

Svo tala menn um það hér að samkeppnin sé ekki næg en eru samt á sama tíma sérstakir talsmenn þess að einn aðili eigi meira og minna allt bankakerfið og það sem hann á ekki hefði hann átt að kaupa, hefði átt að kaupa Arion banka. Svo tala menn í hinu orðinu um einhverja samkeppni. Ég er bara kominn í einhverja gerviveröld. Þetta er óskiljanlegur málflutningur, fullkomlega óskiljanlegur. Ef menn hafa áhuga á samkeppni þá þýðir ekkert hafa einn aðila eiganda að öllu kerfinu. Ef menn hafa áhuga á að lækka vexti þá verða þeir að vita hvað hefur áhrif á vaxtaákvarðanir og vaxtamun. Álögð gjöld eru einn þáttur í því. Ætlar hv. þm. Birgir Þórarinsson að mótmæla því? Er það bara þessi hugmyndafræði að aldrei megi lækka neinar álögur því þá fari það bara til einhverra eigenda og auðmanna? Það eru ekki eigendur og auðmenn sem borga þennan bankaskatt. Það eru neytendur, hv. þingmaður, eins og allar aðrar álögur sem við setjum á. Þetta er ekkert ótengt og verður aldrei ótengt.