149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni. Hann var skeleggur að vanda. Ég held að hv. þingmaður hafi ekki alveg hlustað á ræðu mína áðan. Ég hef aldrei verið talsmaður þess að ríkið ætti allar fjármálastofnanir, ég hef aldrei verið það. Það er bara rangt hjá hv. þingmanni. Ég sagði það í minni ræðu áðan að við yrðum að fara varlega í þetta. Ég er hlynntur því að selja þessa ríkisbanka, það verður bara að gerast skynsamlega og varlega. Um það snýst málið. Hv. þingmaður getur ekki sakað mig um að ég sé talsmaður þess að ríkið eigi alla banka landsins. Það er alrangt hjá honum.

Hins vegar er það þannig að sporin hræða í þessum efnum. Ég nefndi það áðan og fór yfir það að starfsfólki hefur fækkað verulega í bönkunum, við vitum það. Það þýðir náttúrlega að rekstrarkostnaður þessara stofnana hefur minnkað, það er augljóst mál, en það hefur ekki skilað sér til neytenda t.d. í formi lægri gjalda. Það hlýtur hv. þingmaður að vita og getur kynnt sér.

Annað sem hann nefndi sérstaklega var að hann skildi ekki að talað væri um það í öðru orðinu að selja bankana og síðan að eiga þá, eða kaupa hlutinn eins og hann nefndi með Arion banka. Það er alveg rétt. Ég var talsmaður þess að fara varlega í þeim efnum og að ríkið myndi kaupa þann hluta vegna þess að það var mjög mikilvægt í því ferli sem þar var í gangi. Þar voru mikil verðmæti í húfi og margt benti til þess að verið væri að selja hlut ríkisins á undirverði, ef hv. þingmaður er að vísa til þess.

Að öðru leyti held ég að ég hafi komið því skilmerkilega til skila að þessi málflutningur hv. þingmanns er hreinlega rangur hvað mig og minn málflutning varðar í þessu máli.