149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:19]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talar svolítið eins og hv. þm. Smári McCarthy. Jú, ekkert andvígur því að selja, það er bara ekki rétti tíminn, sporin hræða o.s.frv. (Gripið fram í: Það er rétt.) Þetta er það sama og segja: Við erum ekkert að fara að selja. Það er einfaldlega þannig. Hugsanlega einhvern tíma í framtíðinni. Í raun er ekki hægt að skilja þessi orð öðruvísi en svo að menn séu mjög sáttir við eignarhald ríkisins.

Þegar við áttum Íslandsbanka og Landsbanka vildi hv. þm. Birgir Þórarinsson á sama tíma kaupa Arion banka og barðist mjög fyrir því. Það er ekkert rangt í því. Þetta minnir mig á fleiri þingmenn sem hafa sagt: Ja, jú, allt í lagi að selja, en það má ekki selja svona mikið og það þarf að fara varlega. Það er enginn að tala um að þurfi ekki að fara varlega. Menn eru ekkert að byrja á þessu núna. Það hefur komið fram að menn voru farnir að huga að því 2012 að fara að selja eignarhlut í bönkunum. En alltaf þegar kemur að því þá er aldrei rétti tíminn hjá sumum. Þannig skildi ég þessa ræðu. Ég held allir aðrir hafi skilið hana þannig.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson er enginn sérstakur áhugamaður um að selja eignarhlut ríkisins og hann er enginn áhugamaður um að lækka bankaskattinn vegna þess að hann trúir því ekki að það muni hafa áhrif á hagsmuni neytenda. Þannig skildi ég ræðuna og það var ekki hægt að skilja hana öðruvísi. Ég vildi gjarnan skilja hana öðruvísi, það var bara ekki hægt.

Ég vil þá fá skýra leiðréttingu á því ef þetta er rangt hjá mér um bankaskattinn. Vill hv. þingmaður lækka bankaskattinn þannig að hann sé sambærilegur skattur og annars staðar þekkist í samkeppnislöndum okkar og löndum sem við berum okkur saman við? Eða er þetta bara hreinn misskilningur hjá mér allt saman?