149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir andsvarið. Ég rakti það í ræðu minni áðan, hv. þingmaður, að ég teldi afar mikilvægt að erlendur banki kæmi inn í landið og hefði hér starfsemi. Skilur hv. þingmaður það ekki að þá er ég hlynntur því að selja hlut ríkisins í banka eins og t.d. Íslandsbanka? Ég hef aldrei mælt á móti því. Ég sagði í ræðunni, og það var rétt hjá hv. þingmanni, að við ættum að fara varlega í þessum efnum. Varlega. Ég held að tími sé kominn til þess að fara að selja hluti. Það er spurning hvort það eigi að gera það jafnvel í dreifðri eignaraðild og leyfa almenningi að koma þar að. Ég tel alveg að tímapunkturinn sé kominn í þessum efnum. Annað er bara rangt hjá hv. þingmanni og hann hefur misskilið mig hvað það varðar.

En svo ég árétti það sem ég sagði varðandi bankaskattinn, þá nefndi ég það einnig í ræðunni áðan að í því ferli sem fram undan er, söluferli bankanna, þá er vissulega rétt að bankaskatturinn getur verið óheppilegur að vissu marki, en ég sé hins vegar ekki ástæðu til að lækka hann svona bratt eins og stendur til að gera. Það er alveg ljóst í mínum huga og ég hef nefnt það áður og oftar en einu sinni að það er engin trygging fyrir því — og það segir það beinlínis í þessari skýrslu, þessari bók — að þetta muni lækka vaxtamun, að almenningur muni hagnast á þessu. Það er engin trygging. Við vorum að ræða þetta hér, ég og hv. þm. Smári McCarthy, og reyna að finna einhverjar lausnir til þess að sjá til þess að lækkun á þessum skatti skili sér til neytenda. Það er afar brýnt og ég held að hv. þingmaður hljóti að vera sammála okkur í því. (BN: Hvernig ætlarðu að fara að því?)