149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:24]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Af helstu niðurstöðum hvítbókarinnar er hægt að vera sammála rúmlega meiri hluta þeirra. Vandinn liggur miklu frekar í því að hvítbókin byggir hluta af sinni umfjöllun á niðurstöðu sem gefin er sem forsenda: Að eignarhald ríkisins á bönkum sé svo óeðlilegt að það sé nauðsynlegt að losa um þá eign og það helst strax.

Ég ætla að einbeita mér að því að ræða um þá hugmynd, enda er afskaplega ótrúlegt að þau 90% hvítbókarinnar sem fjalla ekki um það skuli ekki vera fókuspunktur pólitíkurinnar heldur sé þetta litla atriði sett fram sem aðalatriði.

Eins og ég nefndi áðan í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra eru þrenn rök gefin fyrir því að hefja þurfi einkavæðingarumferð, óábyrga einkavæðingarumferð að hætti Sjálfstæðisflokksins. Það er mikil áhætta sem fylgi því að eiga banka, mikill tækifæriskostnaður og að það dragi úr möguleikum á samkeppni. Með þessum rökum er kominn grunnur að einkavæðingarhrinu. Það er verið að spila lag sem við höfum svo sem heyrt áður. Það lag heitir „Einkavæðum hagnað og þjóðnýtum tap“ og er með grútlélegu stefi sem spilað er fyrst og fremst af pilsfaldakapítalistum.

En ræðum fyrst um áhættu. Ég ætla ekki að vitna í umsögn dr. Ásgeirs Brynjars Torfasonar um hvítbókina sem er þó mjög ágæt og allir ættu að hafa lesið. En það má við hana að bæta að eftirhrunsregluverk Evrópusambandsins hefur ekki enn að öllu leyti verið tekið upp á Íslandi, t.d. varðandi reikningsskilastaðla, áhættuprófanir og áhættuviðmið. Það að ógna fólki, eins og hefur verið gert, með annarri kreppu er afskaplega asnaleg leið til þess reyna að sannfæra fólk um að selja gullgæsir, sérstaklega þegar á sama tíma er reynt að tala upp að þetta séu svo góðir hlutir til að selja.

Við vitum svo sem að ef við ætlum að tala um áhættusamar aðgerðir hlýtur það að selja 16% af eignasafni ríkisins að skapa vafa um festu- og stöðugleikaskilyrðin sem talað er um í lögum um opinber fjármál. Við söluna batnar vissulega sjóðstaða ríkissjóðs samkvæmt helstu excel-útreikningum en það flæði sem felst í arðgreiðslum frá bönkunum hverfur. Ekkert kemur í staðinn. Athugum að bara fyrir arðgreiðslurnar úr Landsbankanum og Íslandsbanka væri hægt að byggja Landspítalann einu sinni á ári.

Svo er önnur áhætta sem felst í söluferli af því tagi sem hefur verið talað fyrir. Sú týpa fjárfesta sem liggur á hundruðum milljarða í lausafé og ákveður að best sé að kaupa íslenskan banka er líklega ekki sú týpa fjárfestis sem hefur áhuga á því að vera kjölfestueigandi til lengri tíma að burðugu fjármálafyrirtæki sem vill veita góða þjónustu. Áhuginn er miklu líklegri á því að koma inn, hámarka hagnað til skamms tíma, moka út verðmætum og losa svo um stöðuna þegar reksturinn er orðinn hættulega lélegur.

Um tækifæriskostnaðinn þarf svo sem ekkert að ræða neitt frekar. Það er rökleysa að halda því fram samtímis að það sé mikill tækifæriskostnaður af því að binda 420 milljarða eign en ekki tækifæriskostnaður að binda 500 milljarða eign, þó svo að vissulega hafi hæstv. fjármálaráðherra tekið að einhverju leyti undir það áðan að það sé rökleysa.

Um samkeppnissjónarmiðin aftur á móti er nóg að segja. Ég tek undir það sem sagt er um samkeppnisatriði að einhverju leyti en höfum í huga að ríkisbankarnir hafa skilað 207 milljörðum á síðustu fimm árum vegna arðkröfu ríkisins sem er eitt af því sem heldur vöxtum háum. Þetta er aðeins raunhæft í þeirri fákeppni sem er á bankamarkaði í dag og við þurfum meiri samkeppni. En ef meiri samkeppni á að verða væri kannski byrjun að eigendur bankanna í dag myndu setja eigandastefnu sem miðaði að því að keppa frekar á samkeppnisgrundvelli við aðra banka úti í heimi. Raunin er náttúrlega sú að það verður afskaplega lítil samkeppni á íslenskum bankamarkaði meðan vaxtastig stýrivaxta er það hátt að enginn eðlilegur grundvöllur er fyrir samkeppnisrekstri í fjármálageiranum og meðan gjaldmiðillinn er það óstöðugur og óstýrilátur að erlendir aðilar geta ekki treyst því að það verði yfir höfuð einhver verðmæti til í landinu eftir hádegi á einhverjum gefnum mánudegi. Ef við viljum stuðla að samkeppni á fjármálamarkaði er leiðin til þess ekki að selja endilega bankana strax heldur að laga regluverk okkar, markaðsaðstæðurnar, efnahagsleg grunnskilyrði, á þann hátt að úr verði fjármálamarkaður sem einhver hefur áhuga á að koma inn á erlendis frá. Ef við byggjum þetta þá koma þeir.

Nú þykir mér ástæða, herra forseti, til að nefna að ég er enginn sérstakur talsmaður þess að ríkið eigi bankana til frambúðar. Það er ýmislegt sem við gætum gert ef við seldum einhvern hluta þeirra: Fjármagnað vegakerfið án þess að taka upp veggjöld, byggt upp innviði o.s.frv. En íslenskur almenningur er enn brenndur eftir fyrri einkavæðingarhrinu og tortryggni almennings gagnvart einkavæðingaráformum er fullkomlega eðlileg, sér í lagi þegar þau áform koma frá hæstv. fjármálaráðherra sem hefur áður tengst einkavæðingum á ríkiseignum sem hafa farið undarlega leið, svo ekki sé meira sagt. Ég ætla ekki að rifja upp þau mál en það er hægt að lesa um þau í ýmsum skýrslum.

En geirneglum örfá atriði snöggvast, úr því ég hef stuttan tíma. Fyrsta atriðið: Bankasýsla ríkisins setti fjögur viðmið í janúar 2016 fyrir sölu bankanna. Að bankarnir styrktust og næðu stöðugleika. Hér er svo sem ekki mikill stöðugleiki. Hann hefur þó skánað. Virðismat á fjármálafyrirtækjum sé ásættanlegt. Við höfum í rauninni ekki enn upplýsingar um það. Að fjárfestar hafi áhuga. Ég veit ekki til þess að þeir hafi hann. Og að fjármálafyrirtæki séu álitlegur fjárfestingarkostur. Ég myndi telja að þau væru það ekki einmitt vegna regluverksins. En þessi viðmið eru góð og ég legg til að það sé farið eftir þeim.

Og svo atriði númer tvö. Jafnvel ef það er tímabært að skoða sölu að einhverju leyti ætti áherslan ekki vera á að selja í stórum bitum til einhverra lunda heldur miklu frekar að selja kannski 2–4% í hvorum bankanum fyrir sig á ári yfir 20–40 ára tímabil, eins og hefur verið gert mjög víða annars staðar. Á þann hátt myndast stöðugur grunnur fjölbreyttra langtímafjárfesta sem hafa áhuga á því að tryggja góðan rekstur. Þetta er það sem væri ábyrgt í stöðunni.

3. Við ættum að útfæra sem fyrst þau atriði í hvítbókinni þar sem talað er t.d. um sameiginlega innviði bankakerfisins, neytendavernd, stöðu Íbúðalánasjóðs og fleira. Það er margt mjög gott í hvítbókinni sem við ættum að útfæra.

4. Við sölu bankanna með einmitt svona rólegu fyrirkomulagi, 2–4% á ári, sem myndi bæði gera okkur kleift að fjármagna vegakerfið og ýmislegt annað, væri ágætt að við færum þá leið að eyrnamerkja hluta söluágóðans, kannski 30% eða svo á hverju ári, sem framlag til fjárfestingarbanka sem ætti að vera að öllu leyti í eigu ríkisins sem væri byggður á því fyrirkomulagi sem hefur sést í þróunarbönkum víða um heim. Hann hefði það sérstaka hlutverk að lána á lágum vöxtum til smærri verkefna sem snúa að því laga umhverfið og loftslagið og stuðla að atvinnuþróun með ýmsum hætti. Það hefur verið erfitt fyrir fyrirtæki að fjármagna slíkt, að hluta til vegna vaxtaaðstæðna.

Og síðan fimmti punkturinn: Við skulum í einu og öllu taka mark á almenningi þegar hann segir að hann beri lítið traust til bankakerfisins og vilji ekki sjá einkavæðingu framkvæmda með æðibunugangi að hætti Sjálfstæðisflokksins. Þess í stað skulum við stíga mjög varlega til jarðar, á ábyrgan hátt, sem væri vissulega nýmæli í fjármálakerfinu á Íslandi ef því er að skipta. En við höfum öll tækifæri til að klára að laga regluverkið, til að gera þetta öflugt, gera þetta gott, og selja síðan með eðlilegum, rólegum hætti eins og hefur verið gert í löndunum í kringum okkur.

Herra forseti. Hlutverk íslenskra banka á að vera að þjónusta almenning fyrst og fremst. Lægri og sanngjarnari vextir eru skref í þá átt, hátt þjónustustig sem stuðlar að góðum upplýsingum til neytenda skiptir máli og trúverðugt eignarhald til framtíðar á að vera markmiðið. Við gerum það ekki bara með því að losa um eignina sisvona. Því skulum við ekki fórna þessum markmiðum á altari nýklassískrar hagfræði eins og hefur verið rætt um allt of mikið því miður síðan þessi skýrsla kom út og er að vissu leyti fyrirframgefin forsenda þessarar skýrslu, þrátt fyrir að kannanir sem liggja henni til grundvallar tali gegn henni. Trúarbrögð eiga ekkert erindi inn í rekstur landsins. Og þetta eru trúarbrögð, herra forseti, að reyna að gera þetta með þessum hætti.