149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég átta mig ekki á hvað hv. þingmaður er að fara þegar hann segir að það séu einhver trúarbrögð að baki þeirri hugmyndafræði sem er teflt fram í hvítbókinni. Staðreynd málsins er sú varðandi sölu bankanna að bent er á margar leiðir til að draga úr eignarhaldi ríkisins.

Ég vil koma því að, vegna þess að hv. þingmaður vísar í kannanir og segir að fyrir liggi könnun um að almenningur vilji ekki einkavæðingu í anda Sjálfstæðisflokksstefnunnar, einhvern æðibunugang og eitthvað slíkt, að það er engin slík könnun í þessari hvítbók.

Hann telur sömuleiðis að mikil tortryggni sé vegna þess að ég hafi tengst einkavæðingaráformum fyrri tíma. Ég vil bara biðja hv. þingmann um að gera grein fyrir máli sínu og í hvaða skýrslur hann er að vísa þegar hann segir að í skýrslum — sem hann vitnaði til hér svona út í loftið — liggi fyrir með hvaða hætti ég tengist fyrri einkavæðingaráformum. Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að þá var ég ekki á þingi og ég kom ekki nálægt einkavæðingarferli þess tíma sem hann vísaði til.

Mér virðist að hv. þingmaður komi hingað upp og vilji draga línu á milli þess sem segir í hvítbókinni og hans stefnu. Hans stefna er að gera þetta skynsamlega, hans stefna er að flýta sér ekki um of, hans stefna er að fara varlega og gera þetta vel. Ég ætla bara að segja: Það er mín stefna að vanda sig, gera þetta vel, flýta sér ekki um of — og allir þeir þættir sem ég var hér að telja upp tel ég að komi vel fram í hvítbókinni.

En hins vegar er bent á að það tekur langan tíma að undirbúa svona ákvörðun, t.d. um skráningu eða sölu. Það þarf að hugsa langt fram í tímann. Ég sé fyrir mér að við myndum beina sjónum okkar fyrst að (Forseti hringir.) öðrum bankanum og láta reyna á möguleika til að draga úr eignarhaldi varðandi hann og meta síðan stöðuna bara eftir því sem hvert skref verður tekið.