149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:37]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Mörg atriði eru í andsvari hæstv. fjármálaráðherra. Ég vil kannski fyrst segja að mér heyrðist hann slá saman tveimur aðskildum setningum. Það er kannski vegna þess að ég talaði óskýrt, en til að nefna þó einhver einkavæðingaráform, sem mér skilst að hæstv. fjármálaráðherra hafi átt hlut í, er sala á hlutum í Borgun. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Aftur á móti er könnun í skýrslunni þar sem talað er um að 14% landsmanna séu ekki á móti því að bankarnir verði seldir.

Það eru trúarbrögð að keyra þurfi allar skuldir ríkisins niður í núll. Það er að einhverju leyti sá trúarbragðavinkill sem verður til þess að hugmyndin um að selja ríkiseignir og skera þar með á flæði fjármagns inn í ríkissjóð með ýmsum hætti verður svo álitlegur kostur.

Miðað við það hvernig hæstv. fjármálaráðherra svaraði mér áðan þegar ég spurði hann nokkurra einfaldra spurninga held ég að ég hafi gert töluvert betri tilraun til að svara honum.

En mig langar til að spyrja kannski á móti, úr því að ég hef tækifæri til: Úr því að við erum greinilega sammála, úr því að hæstv. fjármálaráðherra segir að hann sé sammála mér í því að fara sér hægt og gera þetta vel o.s.frv., getum við sammælst um það að setja einhvers konar hámarksþak á hversu mikið verði selt í hverjum banka á hverju ári? Mætti það þak vera kannski 4%?