149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég segja að við höfum farið okkur hægt. Við lögðum mjög háar fjárhæðir inn í Landsbankann fyrir tíu árum. Mér finnst ekki hægt að útiloka að það gæti orðið lending, eftir að aðrir kostir hafi verið útilokaðir, að ríkið þyrfti að fara þá leið að skrá banka og smám saman nýta markaðinn til að losa um eignarhald sitt. Mér finnst að það ætti ekki að vera fyrsti valkostur.

Ég verð að halda því til haga að mér finnst að hv. þingmaður ofmeti stórkostlega arðgreiðslugetu ríkisbankanna inn í framtíðina. Hann sagði í ræðu sinni áðan að við myndum geta greitt sem næmi heilum Landspítala á hverju ári bara fyrir arðgreiðslurnar í framtíðinni og værum að fara á mis við þessar miklu arðgreiðslur til framtíðar litið ef við seldum bankana. Þá vil ég benda á að sé það svo að við höfum í hendi okkar arðgreiðslur upp á samtals 70 milljarða út úr þessum bönkum á hverju ári, inn í framtíðina, mun það endurspeglast í söluverðinu. Það er alveg augljóst. Þá er virði bankanna auðvitað stórkostlega vanmetið í hvítbókinni.

Ég held hins vegar að þetta sé mjög mikið ofmat á arðgreiðslugetu ríkisbankanna hjá hv. þingmanni.

Það eru ekki trúarbrögð mín, eins og hv. þingmaður orðar það, að segja um skuldir ríkissjóðs að þær verði að fara í núll, þ.e. nafnvirði skuldanna. Ég hef hins vegar sagt að til lengri tíma litið, og jafnvel á næstu árum, geti hreinar skuldir farið í núll. En ég hef einmitt nýlega skrifað grein um það að við þurfum að halda úti ákveðnum lágmarksskuldabréfaútgáfum.

Og ég verð bara að lýsa mikilli furðu á því að hv. þingmaður skuli koma hingað upp og nefna Borgun sem dæmi um mál sem ég hafi eitthvað haft með að gera. Má ég þá benda hv. þingmanni á að hér erum við með stjórn Bankasýslu og Bankasýslu sem velur í dag í gegnum valnefnd stjórnir banka. (Forseti hringir.) Ég kem hvergi þar nálægt málum. Stjórn og stjórnir banka taka síðan ákvarðanir fyrir hönd bankanna. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður ætti bara að gera grein fyrir því hér með hvaða hætti fjármálaráðherrann hefur í einhverju tilviki, sérstaklega í tilviki Borgunar, (Forseti hringir.) komið að ákvarðanatöku um sölu eigna.

Það er auðvitað alveg með ólíkindum að hlusta á þetta mál hér.

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn og ráðherra á að halda ræðutímann, þó að þeim sé heitt í hamsi.)