149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:41]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ríkisbankarnir hafa skilað 207 milljarða arði til ríkisins á síðustu fimm árum og það er að vísu vegna þess að arðsemiskrafa ríkisins er mjög há. Það er eitt af því sem veldur háum vöxtum og þetta er eingöngu raunhæft vegna þess að fákeppni er á bankamarkaði. Við getum alveg verið sammála um mikilvægi þess að auka samkeppnina. Hvort það sé nákvæmlega rétt að hægt sé að fjármagna heilan Landspítala á hverju ári — ókei, kannski ekki, en við hljótum alla vega að sjá af þessum tölum að hægt væri að komast ansi langt í áttina að því. Viljum við virkilega að ríkissjóður hætti að fá svona fjármagn, svona streymi, inn í framtíðina til að einhver ónefndur S-hópur framtíðarinnar geti hirt þennan ágóða til frambúðar?

Ég held að það sé alveg til í dæminu að við förum einhverja skynsamlega leið, en við verðum að gera þetta mjög varlega og vissulega er verðmat og gott verðmat byggt á forsendum og er eitt af skilyrðunum fyrir því að við getum byrjað á þessu. Það að skrá bankana á markaði og að við losum hægt er held ég rétt leið. En ástæðan fyrir því að ég fer þá leið sem ég hef farið í ræðu minni er vegna þess að grundvallaráhyggjur fólks í samfélaginu eru réttmætar. Fólk er hrætt við að fara í aðra bankasölu vegna þess einmitt að það virkaði svo illa síðast. Þar er tækifæri til að bæta regluverkið. Þar er tækifæri til að gera betur.

En ég ætla ekki að eyða einhverjum tíma núna í að rekja tengsl hæstv. fjármálaráðherra við ýmiss konar mál (Forseti hringir.) vegna þess að tíminn er búinn.