149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:46]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist hv. þm. Brynjar Níelsson vera fyrst og fremst áhugamaður um að misskilja mig eða hafa a.m.k. rangt eftir mér. Ég hef sagt, og sagði hér rétt áðan, að ég vil gjarnan losa um eignarhlutina með afskaplega rólegum hætti. Ég segi afskaplega rólegum hætti, vegna þess að mér finnst vega þyngra að við gerum þetta rólega þannig að það myndist einhver eðlileg kjölfesta á eignarhlutum og dreift eignarhald, fremur en samkeppnissjónarmiðin, þó svo að ég taki undir þau. Ég tek alveg undir þau.

En ég sagði jafnframt að til að samkeppnisástand geti orðið á Íslandi þurfum við að laga kerfið þannig að möguleiki sé á því að t.d. erlendir bankar komi inn á markaðinn og keppi þá í að veita eitthvað annað en bara kreditkortaþjónustu með evru, eða debetkortaþjónustu. Við þurfum að geta t.d. fengið neytendalán. Þetta var ekkert óskýrt.

Varðandi gullgæsina sagði ég orðrétt: Það að ógna fólki með annarri kreppu er afskaplega asnaleg leið til að reyna að sannfæra fólk um að selja gullgæsir. Sem er rétt. Það er asnaleg leið að reyna að segja fólki í aðra röndina: Við erum búin að bæta regluverkið svo mikið að það getur ekki komið önnur kreppa jafnvel þó svo að við myndum selja bankana, en á sama tíma að segja: Það er svo hættulegt að eiga banka að við verðum að selja þá sem allra fyrst — og ógna fólki með annarri kreppu þannig.

Mikilvægt er að laga samkeppnina. Það er mikilvægt að við búum til eðlilegar markaðsaðstæður. Það er ekki eðlilegt, aftur á móti, að gera það með nákvæmlega sama hætti og var gert síðast, að moka öllu út í hendur einhverra fjárglæframanna, eins og reyndin varð. Því miður virkaði það afskaplega illa.

Árið 2001 — ég legg til að fólk kíki á þetta — (Forseti hringir.) allar ræðurnar sem voru haldnar þá í þessari pontu snerust um að þetta væri til að auka samkeppni en samkeppnin jókst ekki.