149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:48]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að vísu er það rangt, samkeppnin jókst auðvitað. Við græddum á því — þangað til bankarnir hrundu.

Ég er ekkert að misskilja hv. þingmann. Ég held að líklegra sé að hann misskilji sjálfan sig. Það er enginn ágreiningur um að fara varlega. Það er enginn að tala um að gera þetta með einhverjum gassagangi. Við erum bara að tala um að það sé óeðlileg staða að einn aðili eigi 70–75%. Því fylgir áhætta.

Ég er ekki að hóta neinu hruni. Það geta verið erfiðleikar í bankarekstri. Ef hv. þingmaður heldur að við séum að taka 70 milljarða af venjulegum rekstri fjármálafyrirtækis er það ekki þannig. Hagnaðurinn er út af allt öðru. Og ef það væri þannig, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt, að menn sæju fyrir sér 70 milljarða hagnað eða 40 milljarða hagnað á hverju ári, kæmi það fram í söluverði bankans.

Það er auðvitað ekki þannig að við séum að henda einhverri gullgæs í einhverja auðmenn. Þetta snýst allt um hagsmuni okkar, hvort skynsamlegt sé að hafa bankakerfið í þessu eignarhaldi. Hvítbókin rökstyður þetta allt mjög vel. Það er enginn að tala um að fara í einhverjum gassagangi að gefa og gera einhverja vitleysu af því að einhvern tímann hafi það verið gert með öðrum hætti á árum áður.

Svo er regluverkið auðvitað allt annað í dag.

Þess vegna verð ég að segja að mér finnst þessi málflutningur svo mótsagnakenndur því að í einu orðinu er sagt: Ja, ég er ekkert á móti því að selja bankana, en það er nú óþarfi að afhenda þessa gullgæs eitthvert og við svo að taka tapið og það þarf að gera þetta rólega — sem enginn efast um. Ég tel mikilvægt að menn svari því hvort þeir telji þetta eðlilegt (Forseti hringir.) eignarhald út frá samkeppnissjónarmiðum, út frá áhætturekstri. Það er spurningin.