149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:50]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég misskil ekki sjálfan mig, en aftur á móti held ég að hv. þingmaður hafi ekki hlustað á hæstv. fjármálaráðherra rétt áðan þegar hann sagðist ekki vilja að það væri fyrsta leiðin sem væri farin að fara að skrá bankana á markað og selja smám saman yfir lengri tíma, heldur vildi hann frekar einhverja aðra leið sem ég túlka sem svo, og ég held að það sé eina rétta túlkunin, að hann vilji selja meira í einu. Áttum okkur á því að það að selja 10% af þessum tveimur bönkum, Landsbanka og Íslandsbanka, jafngildir því að selja eigið fé bankans upp á 42 milljarða á ári, þ.e. ef við færum í 10% á ári. Það er reyndar miklu meira sem talað hefur verið um að gera, að vísu hefur ekki nein tala verið slegin föst vegna þess að það hentar aldrei. En ég kalla það gassagang að ætla sér að fara miklu hraðar í þetta en kannski 2–4% á ári.

Hitt er svo annað mál að mér finnst afskaplega gott að heyra að Sjálfstæðismenn séu að taka upp þá línu okkar Pírata og reyndar fleiri hér, að mikilvægt sé að fara varlega, og kem ég hér kannski áðurnefndum kaupendum bankanna í fyrri einkavæðingu til varnar. Eitt af því sem fór úrskeiðis þá var að Alþingi trúði ekki að það væri gott regluverk og var meira að segja farið í það, mjög ákaft, að fjarlægja allar varúðarráðstafanir á þeim tíma, það sem hefur verið kallað afreglun eða „deregulation“, með leyfi forseta. En með því að passa að regluverkið sé gott getum við búið til góðar samkeppnisaðstæður, getum búið til ástand þar sem við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að bankarnir komi til með að hrynja, heldur höfum möguleika á því að vera með banka sem endast í mörg hundruð ár, eins og í mörgum löndum í kringum okkur. Sænski ríkisbankinn var stofnaður (Forseti hringir.) árið 1690, að mig minnir, eitthvað þannig, og hann (Forseti hringir.) stendur sig og hefur staðið í gegnum margar (Forseti hringir.) kreppur. Við þurfum góðar reglur (Forseti hringir.) og síðan (Forseti hringir.) getum við rætt um (Forseti hringir.) að selja smám (Forseti hringir.) saman í einu.

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn á að halda ræðutíma.)