149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:04]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og yfirferðina og kannski nýjan vinkil af hálfu stjórnarflokkanna. Mér finnst hljóð og mynd stjórnarflokkanna ekki fara alveg saman í þessu máli og kemur kannski ekki á óvart. En það er samt getið nákvæmlega um sölu bankanna í stjórnarsáttmálanum og farið yfir málið.

Það sem sameinar stjórnarflokkanna, og þar fer hljóð og mynd saman, er að líta fram hjá kostnaðinum við krónuna. Það kemur alveg skýrt fram í skýrslunni, og ég vil hrósa þessari hvítbókarvinnu, að krónan hefur, ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta er orðað, „gegnsýrt“, ég man að það orð er notað, okkar hagkerfi. Það er bent á þennan mikla kostnað og ég held að það sé einfaldlega ekki hægt að skauta yfir það að við verðum ekki samkeppnishæf áfram með krónu. Ég held að þetta sé risabreyta í bankamálum, í rekstri banka, eins og svo mörgum málum. Rekstur banka kemur náttúrlega inn á rekstur heimila og hár vaxtakostnaður er ekki síst kominn til vegna gjaldmiðilsins.

En gott og vel, ég ætla ekki að spyrja út í það. Hv. þingmaður fagnaði því að salan hafi verið slegin af, alla vega að sinni, og ég tek undir að ef og þegar verður farið í söluna verði það byggt á trausti og gagnsæi. Við eigum að læra af reynslunni og gera ríkar, strangar kröfur. En síðan er nálgunin kannski svolítið mismunandi á milli flokka. Sérstaklega finnur maður það hjá stjórnarflokkunum.

Í fyrsta lagi: Hvenær sér hv. þingmaður söluna fara af stað?

Í öðru lagi: Eru stjórnarflokkarnir sammála um að þetta ferli eigi að hefjast á þessu kjörtímabili?

(Forseti hringir.) Í þriðja lagi: Er hv. þingmaður sammála því sem kemur fram í skýrslunni, hvítbókinni, (Forseti hringir.) að það verði að lækka bankaskattinn til þess m.a. að gera íslenska banka (Forseti hringir.) samkeppnishæfari og um leið söluvænlegri?