149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:09]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að hrósa hv. þingmanni hvernig hversu vel hún tekst á við hlutverk sitt sem er að vera þingflokksformaður og halda ríkisstjórninni saman því það eru undirliggjandi skiptar skoðanir. Annars vegar eru það Vinstri græn sem halda vöku sinni á sinni vakt og síðan eru það Framsókn og Sjálfstæðisflokkur sem eru kannski aðeins á öðrum miðum. En það er ljóst að það eru skiptar skoðanir.

Mér finnst krónuafneitunin hafa verið einkennandi hér í dag en ég vil hins vegar fagna því sérstaklega að hv. þingmaður talar um að nefndin fari sérstaklega í umfjöllun um krónuna. Mér finnst ríkisstjórnin hafa slegið hvaða umfjöllun sem er um krónuna eiginlega út af borðinu. Ég held að það sé afar brýnt og mikilvægt að krónan verði einmitt tekin til umfjöllunar þegar hvítbókin og innihald hennar er rætt frekar.

Þar er líka hægt að taka undir orðin um erlenda aðila.

Það er búið að slá útsöluna af á þessu ári og ég hlýt að spyrja hvort Vinstri grænir treysti ekki sjálfum sér til að fara í söluferli meðan þau eru í stjórn, hvort Vinstri græn treysti sér ekki einmitt til þess að fara í ferlið til að hafa svolitla stjórn á því og fara í það ferli á sínum forsendum m.a., að þeirra kröfum.

Þetta segir mér samt í rauninni að það bendir allt til þess að á þessu kjörtímabili verði ekkert gert varðandi sölu á bönkunum. Það er umhugsunarefni hvort við Íslendingar eigum að hafa svona stórar fjárhæðir fastar inni í kerfinu. Forsætisráðherra sjálfur hefur sagt að það sé spurning hvort við hefðum sjálf fjárfest í öllum þessum bönkum miðað við óbreytt ástand. Hefðum við sjálf farið núna og keypt í bönkunum? Ég held ekki. Ég tel að þeim fjárfestingum sem landsmenn allir eiga inni í bönkunum væri mun betur varið í þær gríðarlega miklu (Forseti hringir.) samgönguframkvæmdir sem þarf að fara í, m.a. hér á suðvesturhorninu, í stað þess að fara þá stórfelldu skattahækkanaleið sem stjórnarflokkarnir, með Miðflokki, (Forseti hringir.) stefna okkur í að öllu óbreyttu.