149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum aftur fyrir andsvarið og hrósið. Það er alltaf gott að fá hrós. Mér finnst ekkert erfitt að vera þingflokksformaður Vinstri grænna. Mér finnst ég ekki vera að líma eitthvað óyfirstíganlegt saman, alls ekki. Lífið er fullt af áskorunum. Þetta er ein af þeim.

Hv. þingmaður spyr hvort við treystum okkur til að selja á meðan við erum enn í stjórn. Eins og ég sagði áðan: Þetta hlýtur alltaf að vera gert og á að gera með hagsmuni almennings og okkar allra í huga. Við þurfum að horfa til þess hvernig umhverfið er. Er umhverfið þannig að við getum hámarkað innkomu okkar af sölu banka? Eins og hér hefur komið fram er Íslandsbanki sá banki sem við myndum reyna að selja fyrst. Mér fannst þingmaðurinn óþarflega svartsýnn. Við erum búin með rétt rúmt ár af kjörtímabilinu. Við erum rétt að byrja, vona ég. Það er ekki eins og við séum að fara frá á morgun eða hinn eða ég ætla rétt að vona að svo sé ekki. Ég held að okkur gefist nú ágætt færi.

En fyrst og síðast hlýtur þetta að snúast um það að aðstæður séu þess eðlis á markaðnum að það borgi sig fyrir okkur að selja banka, að við hámörkum innkomu til handa þjóðinni þannig að við getum einmitt nýtt okkur hana til góðra verka.

Ég tek undir það að auðvitað hefðum við ekki keypt alla þessa banka ef við hefðum haft eitthvert val um það. Ástæðan er auðvitað efnahagshrunið sem við lentum í og fengum þetta í fangið. Ég geri ráð fyrir því að við hefðum eflaust nýtt þessa fjármuni sem þurftu að fara í bankakerfið á sínum tíma í að byggja upp samfélagslega innviði. En það breytir því ekki að mér finnst, eins og ég segi enn og aftur, að við eigum að hugsa um að það sé gott og samfélagslegt eignarhald á banka, einum stórum kerfislægum banka. Síðan eigum við að reyna að selja Íslandsbanka þegar vel árar og við getum hámarkað innkomu okkar fyrir land og þjóð.