149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:13]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Hér fjöllum við um hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem lagt er upp með að skapi traustan grunn fyrir málefnalega umræðu og varpi ljósi á stöðu og þróun fjármálakerfisins.

Lagt er til að framtíðarsýn fjármálakerfisins sé mótuð með hliðsjón af þremur meginstoðum sem jafnframt eru viðfangsefni hvítbókarinnar. Þær eru gott regluverk og öflugt eftirlit þess að fjármálaþjónusta þjóni heimilum og fyrirtækjum á skilvirkan hátt og þriðja stoðin er traust eignarhald fjármálafyrirtækja.

Gott og vel. Starfshópurinn fékk Gallup til að gera skoðanakönnun um viðhorf almennings til bankakerfisins í október síðastliðnum, áratug eftir hrun fjármálakerfisins. Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að almenningur á Íslandi hafi ekki öðlast trú og traust á bankakerfinu á þeim áratug sem liðinn er frá hruni. Þau orð sem almenningi dettur fyrst í hug til að lýsa fjármálakerfinu á Íslandi eru m.a. græðgi, okur, spilling og háir vextir. Þegar væntingar fólks til bankakerfisins eru kannaðar koma hins vegar m.a. fram orðin sanngjarnt, heiðarlegt, lágir vextir og traust.

Staðan á fjármálamarkaðnum er þannig að ríkið á tvo banka af þremur á íslenskum markaði. Þegar spurt er út í hug til eignarhalds á bönkunum eru 61% þeirra sem spurðir eru jákvæðir fyrir eignarhaldi ríkisins. Ekki virðist mikil stemning fyrir sölu á eignarhlut ríkisins í niðurstöðum skoðanakönnunarinnar.

Áhrif fjármálakreppunnar fyrir áratug koma enn fram og ekki hefur gengið sem skyldi að endurbyggja traust almennings til fjármálakerfisins með sama hætti og hefur gerst erlendis. Áhrifin á íslensk heimili voru gífurleg og eru margir hverjir enn að súpa seyðið af þeim ósköpum og enn að leita réttar síns í þeim málum.

Á þeim tíu árum sem liðin eru frá hruni hefur þó ýmislegt áunnist. Regluverk hefur verið endurskoðað og bætt til muna til að draga úr áhættu kerfisins, auk þess sem stofnanaumgjörð hefur verið efld. Eins og segir í hvítbókinni er bankakerfið nú heimamiðað og mun minna en fyrir tíu árum. Auknar kröfur eru gerðar hvað varðar fjárhagslega stöðu fjármálafyrirtækjanna sem eykur getu þeirra til að standa af sér áföll. Dregið hefur verið úr áhættu í starfseminni og dregið úr hvötum til áhættustarfsemi.

Þær breytingar sem gerðar hafa verið á regluverki bankanna minnka einnig kostnað samfélagsins ef til þess kemur að kerfislega mikilvægir bankar lenda í erfiðleikum.

En kallað er eftir trausti. Í hvítbókinni er komið vel inn á að eftirlit með fjármálastarfsemi á Íslandi hefur tekið stakkaskiptum síðasta áratuginn. Miklar breytingar hafa orðið á eftirlitsumgjörð og mati á kerfisáhættu. Eftirlitið þarf að vera skilvirkt og grípa þarf inn í ef þörf krefur. Með því að sameina eftirlit með bönkunum á einn stað með sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlits, eins og unnið er að, mun heildarsýn á helstu áhættuþætti fjármálakerfisins aukast og efla enn frekar skilvirkni við fjármálaeftirlit og þjóðhagsvarúðarráðstafanir. Þekkingargrunnur sameiginlegs eftirlits verður einnig fjölbreyttari og slagkrafturinn meiri.

Íslenskir neytendur kalla eftir sanngjarnara bankakerfi með lægri vöxtum, minni græðgi í formi ofurlauna og bónusa, meira gagnsæi og að bankarnir séu reknir í þágu fólksins. Hins vegar er lítið sem ekkert rætt um svokallaðan samfélagsbanka í hvítbókinni, sem er þó töluvert í umræðunni. Fjallað er um að samfélagslegar áherslur í bankastarfsemi geti verið með ýmsu móti og hver samfélagsleg sjónarmið gætu verið. Hins vegar hugsa höfundar hvítbókarinnar að mínu mati ekki út fyrir boxið og reyna ekki að finna ákalli þeirra sem tóku þátt í skoðanakönnun Gallups farveg, hvernig hægt sé að finna slíkri fjármálastofnun, samfélags- eða hugsanlega þjóðbanka, farveg í framtíðarsýninni og byggja undir málefnalega umræðu í þá átt. Það hefði verið forvitnilegt að fá þær hugmyndir fram.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því. Ljóst er þó að ríkissjóður verður leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun.“

Í hvítbókinni er talað um að mikilvægt sé að stjórnvöld hugi að möguleikum til að losa um eignarhluti með heildstæðum hætti. Farið er yfir nokkrar aðferðir til sölu, jafnvel söluferli beggja bankanna samhliða, sem mér finnst ansi bratt farið.

Mikilvægt er að fara rólega og yfirvegað í söluferlið því að fyrri spor hræða. Mikilvægt er að allt ferlið sé gagnsætt, að stefnt sé að dreifðu, fjölbreyttu og traustu eignarhaldi. Það á ekki að vera keppikefli ríkisins að flýta sér um of í þeim málum og mikilvægt er að almenningur finni að unnið sé af heilindum samfélaginu til heilla og að skapað sé traust.

Ljóst er að eignarhaldið eins og það er í dag er ekki vegna vilja ríkisins til að reka fjármálafyrirtæki heldur vegna neyðar sem skapaðist á sínum tíma. Hvítbókin er komin fram með ákveðið leiðarljós frá höfundum hennar. Fram undan er umræða um hvítbókina í efnahags- og viðskiptanefnd með gestakomum úr hinum ýmsu áttum sem eiga án efa eftir að varpa ljósi á fjölbreyttan hátt á umfjöllunarefnið. Í mínum huga erum við komin af stað en enn sér ekki í land.