149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:31]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Við ræðum hvítbókina svokölluðu. Mér finnst þessi bók, ef bók skyldi kalla, að einhverju leyti hafa ýmislegt gott til málanna að leggja. En það er dapurt að horfa upp á hvernig almenningur er enn og aftur tekinn og honum pakkað saman og fleygt út í horn.

Hvar er umræðan um verðtrygginguna og afnám hennar? Hvar er í rauninni reynt að taka utan um vaxtaokrið? Eigum við t.d. að líta til þess hvað þjóðinni finnst og hvað þjóðinni dettur fyrst og fremst í hug þegar við nefnum bankakerfið? Háir vextir, dýrtíð, okur, glæpastarfsemi, spilling og græðgi eru orðin sem flestum dettur fyrst í hug.

Á Íslandi eru aðeins 16% sem bera mikið traust til bankakerfisins á meðan 57% bera mjög lítið traust til þess. Ástæður þess að fólk ber ekki traust til íslenska bankakerfisins eru samkvæmt könnun; hrunið, græðgi, sagan, reynslan, óheiðarleiki, spilling, háir vextir. Bankarnir hugsa fyrst og fremst um eigin hag og að hagnast.

Viðhorfskönnun sýnir að 62% landsmanna vilja að ríkið eigi bankana, en það eru aðeins 14% landsmanna sem vilja selja þá. Hæstv. fjármálaráðherra virðist vera búinn að gleyma því hvernig síðasta einkavæðing fór. Hann vill selja, ekki spurning. Vissulega er slæmt að ríkið þurfi að standa í bankarekstri, en við vitum af biturri reynslu að einkarekstur banka er í raun og veru hættulegur ríkinu, hvað þá fólkinu sem byggir landið.

Bankarnir eru stórir og samkeppnin er lítil á milli þeirra. Þá er betra að ríkið eigi þá og stilli gróðasækni þeirra í hóf. Eigum bankana áfram og breytum Íslandsbanka eða Landsbanka í samfélagsbanka að þýskri fyrirmynd. Já, eða tökum þá báða jafnvel og breytum þeim í einn stóran samfélagsbanka um leið og við getum fellt niður Íbúðalánasjóð og gert hann að einni deild í þeim banka. Hvað myndum við spara mikið við það?

Við getum líka talað um — hugsið ykkur — að við erum búin að fá 207 milljarða kr. á síðustu fimm árum í arðgreiðslur út úr bönkunum. Hér er gjarnan sagt af hæstv. fjármálaráðherra að það sé ekki tryggt til framtíðar að við fáum slíkar arðgreiðslur. En staðreyndin er sú að við höfum haft rúma 20 milljarða á ári síðustu fimm árin í arðgreiðslur. Talað er um að við fáum 330 milljarða ef við seljum eignarhlut ríkisins í bönkunum.

En snúum okkur pínulítið að samfélagsbankanum, sem er í rauninni hugmynd um það hvernig við getum tekið utan um fólkið í landinu og reynt að efla traust og trú til okkar, ekki bara kjörinna fulltrúa hér heldur á fjármálakerfinu. Tölum um Borgunarmálið. Það er eitt af mörgum málum þar sem almenningur átti bara ekki eitt einasta aukatekið orð.

Samfélagsbanki er eign almennings. Hann getur verið á vegum ríkisins eða sveitarfélaga. Markmið og starfsemi bankans eru skilgreind af okkur með sérstökum lögum og í þeim á að koma fram að markmið bankans sé að þjóna almenningi fyrst og síðast og hagsmunum hans. Hagnaðurinn fer til eigendanna, þ.e. til almennings.

Þess vegna er hægt að nota hagnaðinn til að styðja ákveðin verkefni eða jafnvel lækka skatta eða hvaðeina sem gott þykir. Samfélagsbanki er viðskiptabanki en ekki fjárfestingarbanki. Hvers vegna tölum við svona mikið um aðskilnað fjárfestingarbanka og viðskiptabanka? Jú, vegna þess að það sem við horfum upp á, t.d. í þeirri gríðarlegu græðgisvæðingu sem varð í bankakerfinu fyrir hrun, er að í rauninni voru innlánin okkar, viðskiptamanna bankans, nýtt sem ódýrt fé til fjárfestinga. Bankinn sem greiddi okkur kúk og kanel, virðulegi forseti, fyrir að lána peningana okkar eða leggja þá inn í bankann, tók þá síðan að láni sjálfur og gamblaði með þá. Við erum svo sem ekki búin að gleyma hvernig það fór. Hefði ríkissjóður ekki verið búinn að tryggja innlánsvextina hefðu margir átt jafnvel um enn sárar að binda en raun bar vitni.

Samfélagsbanki tekur ekki þátt í áhættusömum veðmálum spilavíta fjárfestingarbankanna. Samfélagsbanki fjárfestir því í raunhagkerfinu, fyrirtækjum sem framleiða raunverulegar vörur en ekki bara gúmmítékka. Þess vegna eru mun minni líkur á því að hann fari í gjaldþrot.

Virðulegi forseti. Það er algert lágmark þegar við tölum um framtíðina á fjármálamarkaði að við stígum út fyrir boxið, að við reynum þá a.m.k. að vinna það í sátt við samfélagið. Auðvitað þurfum við að vera með það niðurnjörvað og skipulagt fram í tímann. Við þurfum að horfa á það hvernig við getum gert hlutina sem best. Er það hagkvæmt að ríkið skuli eiga banka?

Ég hef bent á það í stuttu máli hvernig ég og Flokkur fólksins munum verja eignarhald ríkisins á þessum tímapunkti, þegar almenningur er í rauninni algerlega andsnúinn því, að stærri hluta, að við förum að selja bankana akkúrat núna. Verið er að gera lítið úr því þegar við tölum um, sum hver, að við séum jafnvel að selja frá okkur gullgæs þá er það einfaldlega þannig, staðan er akkúrat þannig í dag. Við erum að taka gríðarlegar arðgreiðslur út úr bönkunum, gríðarlega miklar arðgreiðslur.

En samfélagsbankinn er í rauninni það sem við ættum helst að skoða. Mér finnst að það sé það sem koma skal, sannarlega, ef við viljum vera samkvæm sjálfum okkur og vinna fyrir fólkið í landinu.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili, en segi bara: Á meðan við horfum ekki á það að hér hafa fjölskyldur, heimili og fyrirtæki þurft að punga út 118 milljörðum kr. einungis vegna húsnæðisliðar inn í vísitölu — þetta er ekki einu sinni nefnt. Það er ekki einu sinni nefnt að líta eigi til þess að afnema verðtryggingu í einhverjum skrefum eða áföngum. Ég vildi náttúrlega svipta henni af í einu lagi eins og hún leggur sig.

Flokkur fólksins segir: Það er orðið tímabært að setja fólkið í fyrsta sæti á þessu háa Alþingi og það er nákvæmlega þangað sem við horfum.