149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:38]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U):

Frú forseti. Það er ástæða til að þakka fyrir þessa skýrslu. Hún er ágæt svo langt sem hún nær. Meðal þeirra atriða sem þar eru tekin upp er að hluti bankakerfisins ætti að vera í erlendri eigu. Rétt er að minna á að einn stórbankanna er í eigu erlendra fjárfestingarsjóða, stundum kallaðir vogunarsjóðir, a.m.k. sumir hverjir.

Ráðherra sagði í framsögu að við þyrftum ekki að flýta okkur, ef rétt var tekið eftir, en samt var eins og honum lægi nokkuð á í málinu. Mér fannst eins og hann slægi eilítið úr og í. En auðvitað er það þannig að með skýrslunni er verið að ýta á eftir því að draga úr eignarhaldi ríkisins á bankakerfinu. Það er út af fyrir sig sjónarmið, vissulega. En ástæða er til að stíga fast til jarðar í þeim efnum. Það er alveg nauðsynlegt, frú forseti, að sala á umtalsverðum hluta af ríkiseignum fari fram við þær aðstæður að markaðsskilyrði séu sem best og vil ég leyfa mér að nefna þrjú atriði í því sambandi.

Það kom glögglega í ljós í hruninu að eftirlit af hálfu Kauphallar og Fjármálaeftirlitsins væri ekki í öllum efnum sem skyldi. Alveg nauðsynlegt er að það verði fært enn meira til betri vegar en raunin hefur orðið. Ég leyfi mér að nefna að það hefur verið nokkuð áberandi, til að mynda í fréttum, að stjórnarmenn í skráðum fyrirtækjum hafa verið að selja bréf og valdið ákveðnum truflunum og jafnvel verðfalli á mörkuðum með því að gera það þegar mjög er liðið á uppgjörstímabil. Salan væri til þess fallin að skapa þá hugmynd meðal annarra á markaði að þarna væru aðilar sem hefðu staðgóða þekkingu á innviðum fyrirtækjanna og teldu hag sínum best borgið með því að losa um a.m.k. hluta af eignarhluta sínum. Það þarf að skapast miklu meiri tiltrú á því að eftirlitið sé fullnægjandi.

Í annan stað kom fram í hruninu um áritanir endurskoðanda, jafnvel þó að þar stæðu að baki fyrirtæki með erlend glæsiheiti, að ekki reyndist mikil innstæða á bak við, eins og menn þekkja. Sömuleiðis þarf að skapast sú tiltrú um hið mikilvæga hlutverk sem endurskoðendur gegna að það ríki fullt traust á því að áritun af hálfu þeirra sé því til staðfestingar að hagur fyrirtækisins, í þessu tilfelli bankanna, sé með þeim hætti sem ársreikningarnir virðast gefa til kynna.

Í þriðja lagi er náttúrlega vernd þátttakenda á markaði, sem hætta í mörgum tilvikum eigin fé eða í tilfelli lífeyrissjóða eða annarra sjóða fé annarra, sú vernd sem réttarvörslukerfinu er ætlað að veita. Reynslan sem við höfum fengið sýnir hún er ekki að öllu leyti óyggjandi. Það er nokkuð áberandi að réttarvarsla í því efni virðist hafa skollið á mönnum með nokkuð misjöfnum hætti, jafnvel þannig að athygli hefur vakið. Í raun og veru er í mínum huga opin spurning hvort réttarvörslukerfið sé að öllu leyti í stakk búið til að sinna því hlutverki, enda hafa heyrst umkvartanir og útskýringar úr þeirri átt um að menn hafi búið við mikla manneklu og erfiðar aðstæður.

Frú forseti. Mér þótti nokkuð sérkennilegt að ráðherra skyldi taka að sér að verja hávextina hérna og málsvörn hans var ekki að öllu leyti sannfærandi, að þeir háu vextir sem við búum við endurspegli efnahagslega velgengni. Nærtækara er að líta til þátta sem liggja nær, til að mynda háir stýrivextir Seðlabankans sem eru mun hærri en gerist og gengur í nágrannalöndum okkar og vestrænum ríkjum almennt. Sömuleiðis er eðlilegt að líta til þess að hugsanlegt er, svo ekki sé meira sagt, að samkeppnin mætti vera öflugri á milli fjármálastofnana.

Varðandi skýringar ráðherra á vaxtamun, þ.e. á milli útláns- og innlánsvaxta innlendra banka, er eðlilegast að skoða þann vaxtamun í samhengi við hagkvæmni í rekstri bankanna. En þá er þess að geta að þeir hafa ekki verið þekktir, a.m.k. til skamms tíma, fyrir lágt kostnaðarhlutfall.

Í skýrslunni er afar lítið fjallað um grundvallarþátt í íslensku fjármálakerfi, verðtrygginguna, sem hefur grafið um sig á hátt sem menn þekkja. Hefði verið mikill fengur að því að þessi nefnd hefði fjallað meira um það. Ég vil leyfa mér að segja að möguleg sala eða einkavæðing á hluta eða öllum eignarhlutum ríkisins í bankakerfinu má ekki verða til þess að það verði borin von um alla framtíð að hægt verði að flytja landið í fjármálalegu tilliti inn á svæði Vesturlanda þar sem verðtrygging af því tagi tíðkast almennt ekki — og alls ekki. Hún er náttúrlega óþekkt fyrir einstaklinga og heimili og minni atvinnufyrirtæki annars staðar en hér.

Það er þannig að nefnd fjallaði um verðtrygginguna, í fyrsta sinn á ítarlegan hátt, og tók hana til rannsóknar. Þetta er nefndin sem fjallaði um framtíð íslenskrar peningastefnu. Niðurstaða af rannsóknum sem fóru fram á vettvangi þeirrar nefndar var sú að gera grundvallarbreytingu sem felur í sér að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni við mótun og framkvæmd peningastefnu Seðlabankans. Ég segi grundvallarbreyting vegna þess að sá liður, húsnæðisliðurinn, hefur orðið vægi í vísitölunni sem nemur 30–40%.

Önnur einkenni á verðtryggingunni eru þau, eins og menn þekkja, að öll áhætta vegna verðbreytinga er lögð á annan aðilann, algerlega einhliða. Eins og fjallað er um í skýrslunni sem ég vitnaði til telur nefndin ekki að húsnæðisliðurinn endurspegli eiginlega verðbólgu heldur vandamál á framboðshlið markaðarins. Hækkanir á óbeinum sköttum leiða af sér hækkanir á vísitölunni o.s.frv.

Nauðsynlegt er að mjög ítarlega séu ræddir þættir á borð við aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka og hlutverk Seðlabanka til þrautavara.

Hér hefur verið vikið að lækkun bankaskatts. Hann virðist fyrst og fremst gerast í boði forystuflokks ríkisstjórnarinnar í þeirri trú að hann muni endilega leiða af sér samsvarandi bættan hag viðskiptamanna bankanna. Ekki er hægt að fullyrða að það muni endilega gerast.

Ég ætla að segja að varhugavert er að tengja umræður um sölu bankanna við nauðsynlega uppbyggingu innviða. Aðrir kostir eru fyrir hendi. Uppi eru hugmyndir um þjóðarsjóð. Eðlilegra væri að nota það fé í því skyni. Ég veit að ég er að fara inn á mikið hugmyndafræðilegt atriði sem fjármálaráðherra gat um en ástæða væri til að ræða það.

Að lokum vil ég segja að ég veit að fjármálaráðherra vill leggja áherslu á (Forseti hringir.) ráðdeild og sparnað. Þess vegna leyfi ég mér að hvetja ráðherra til að sjá til þess að fallið verði frá byggingunni (Forseti hringir.) niðri við höfn, sem mér skilst að eigi að kosta 9 milljarða, og virðist miðast við (Forseti hringir.) að byggja yfir banka af miklu eldra tagi en nútíminn býður upp á.