149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:49]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Í upphafi ætla ég að hrósa fyrir það sem vel er gert. Það skiptir í sjálfu sér engu máli hvort við tökum undir í einu og öllu það sem sagt er í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið eða ekki. Verkið er vel unnið og til fyrirmyndar. Það er til fyrirmyndar að staðið skuli að málum með þeim hætti að útbúa hvítbók um mikilvæg málefni. Einhver þeirra geta verið umdeild hér í þingsal. En með því er verið að leggja ákveðinn grunn sem gæti leitt til þess a.m.k. að hér yrði innihaldsríkari umræða um viðfangsefnið. Ég lít fyrst og fremst á þá hvítbók sem við ræðum hér sem verkfæri fyrir okkur sem hér erum en líka fyrir fjölmiðla og almenning til að komast að niðurstöðu um það hvernig við viljum móta fjármálakerfið til langrar framtíðar eða eins langt og við sjáum. Það er ekki víst að við sjáum lengra en svo að tækniframfarir geri framtíðarsýn okkar dálítið þokukennda.

Ekki er um það deilt að umsvif ríkisins á íslenskum fjármálamarkaði eru gríðarleg, meiri en í öllum löndum sem við viljum bera okkur saman við. Það er aðeins í Rússlandi, Kína, ríkjum í Norður-Afríku og Suður-Ameríku sem fyrirferð hins opinbera á fjármálamarkaði er svipuð eða meiri en hér gerist. Við erum líklegast með um 330 milljarða bundna í tveimur bönkum, Íslandsbanka og Landsbanka. Það eru um 13% af vergri landsframleiðslu. Við erum með 120 milljarða til viðbótar í þremur lánasjóðum. Síðan er ríkið beint eða óbeint í ábyrgðum fyrir 857 milljarða og munar kannski mestu um Íbúðalánasjóð.

Í hvítbókinni, sem við ræðum hér, er bent á að þessir eignarhlutir séu ekki án fórnarkostnaðar. Þó að verulegar arðgreiðslur bankanna á síðustu árum hafi vegið þann fórnarkostnað upp að hluta, jafnvel að öllu leyti, stefnir í að þær muni ekki gera það á komandi árum og muni lækka allverulega. Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að við erum að reyna að finna út hvernig við ætlum að fjármagna mjög umsvifamiklar, nauðsynlegar innviðafjárfestingar sem hafa ótvíræðan samfélagslegan ábata í för með sér. Höfundar hvítbókarinnar benda á að verðmæti eignarhluta í þessum tveimur bönkum, Íslandsbanka og Landsbanka, jafngildi fimm nýjum háskólasjúkrahúsum eða 30 Hvalfjarðargöngum.

Við stöndum frammi fyrir því að ákveða hvort við teljum — og við verðum þá að sannfæra okkur sjálf um það — að það sé skynsamlegt og þjóni hagsmunum almennings best að binda þessa fjármuni, 330 milljarða, áfram í fjármálakerfinu en færa þá ekki yfir í samfélagslega innviði, hvort heldur það eru sjúkrahús, samgöngumannvirki, skólar o.s.frv.

Ég er sjálfur sannfærður um að fjárfesting og fjárbinding í heilbrigðiskerfinu skili meiri arðsemi en að binda áhættufé í bankastarfsemi. Ég held líka að lífsgæði almennings verði meiri og ég er algerlega sannfærður um að uppbygging menntakerfisins er áhrifaríkari leið til að tryggja jöfnuð en nokkur önnur leið sem okkur er fær, að tryggja að allir geti ræktað hæfileika sína óháð efnahag. Það er betri leið að setja fjármuni í slíka fjárfestingu, í menntakerfið, að tryggja menntun óháð efnahag, að allir geti sótt sér menntun og nýtt hæfileika sína, en að binda 330 milljarða í fjármálakerfinu.

Þetta eru kostirnir sem við stöndum frammi fyrir. Ég nálgast þetta viðfangsefni út frá þessu. Þegar ég er að svara þeirri spurningu hvort rétt sé og skynsamlegt að ríkið dragi sig að hluta eða öllu leyti út úr starfsemi fjármálafyrirtækja er ég með þetta í huga. Því til viðbótar bætist sú sannfæring að ég tel að ríkið eigi ekki hafa með höndum rekstur banka eða fjármálafyrirtækja, allra síst þeirra sem eru í samkeppni. Slíkt mun til lengri tíma hamla framþróun og draga úr samkeppni og það mun koma niður á íslenskum heimilum og íslenskum fyrirtækjum.

Hlutverk ríkisins á því fyrst og fremst að vera fólgið í því að móta rammann, setja regluverkið um fjármálakerfið sem tryggir heilbrigði þess og stuðla að því að bankar sinni hlutverki sínu, þ.e. að þjóna einstaklingum og þjóna fyrirtækjum með sem lægstum tilkostnaði. Þetta á að vera meginhlutverk ríkisins þegar kemur að fjármálamarkaðnum.

Í mínum huga skiptir ekki öllu hvort eignarhlutir ríkisins í bönkunum verða seldir árinu fyrr eða síðar. Það skiptir mestu að fyrir liggi skýr stefna um hvert við ætlum, að það sé öllum ljóst hvaða hlutverk við ætlum ríkinu í fjármálakerfinu, hvort við ætlum því yfir höfuð eitthvert hlutverk þegar kemur að eignarhaldi, sem mér virðist mjög margir í þessum sal telja nauðsynlegt. En ég er ekki alveg sannfærður um það, eins og ég sagði áðan. Við þurfum að svara þeirri spurningu hvort ríkið ætli fyrst og fremst að huga að eftirlitshlutverkinu og nauðsynlegri reglu- og lagasetningu til að tryggja hina heilbrigðu samkeppni og fjárhagslegan stöðugleika sem ég vék að áðan — eða stefnir ríkið að því að eiga til frambúðar ráðandi hlut í einum eða tveimur bönkum? Hvaða ástæður liggja þar að baki? Hverjar eru röksemdirnar? Nú stöndum við frammi fyrir því að við þurfum að færa rök fyrir því af hverju við tökum þá ákvörðun að binda sameiginlega fjármuni í áhættusömum fjármálarekstri en færa þá ekki yfir í samfélagslega innviði eða búa í haginn með því m.a. að leggja væntanlegt söluverð eignarhluta ríkisins í bönkunum í þjóðarsjóð, inn í lífeyrisskuldbindingar ríkisins eða með öðrum hætti.

Ef það er niðurstaðan hér að menn telji nauðsynlegt að ríkið eigi með einhverjum hætti ráðandi hlut í viðskiptabanka verður um leið að taka ákvörðun um það hver eigandastefnan er, hver markar eigandastefnuna og af hverju. Hver er tilgangurinn með eignarhaldinu?

Ég óttast að eignarhald ríkisins á ráðandi hlut í kerfislega mikilvægum banka geti haft alvarlegar afleiðingar þegar kemur að samkeppni á fjármálamarkaði, að það muni draga úr og hamla samkeppni. Hér er meira að segja (Forseti hringir.) talað fyrir því að ríkið reki undir hatti svokallaðs samfélagsbanka — ég á eftir að skilja nákvæmlega hvað fólgið er í því — niðurgreidda fjármálaþjónustu.