149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir innihaldsríka og yfirgripsmikla ræðu. Margt er hægt að taka undir en það er líka eitt og annað sem vekur mann til umhugsunar. Í stórum dráttum deili ég því sem hv. þingmaður sagði hér. Við verðum sérstaklega að spyrja okkur að því hvort rétt sé á þessum tíma að halda 330 milljörðum föstum, öllum í bankakerfinu. Ég er þeirrar skoðunar, ekki síst í ljósi þeirrar reynslu sem við verðum að læra af, að ef og þegar við förum í sölu á bönkunum — við gætum byrjað, eins og einhverjir hafa sagt, á Íslandsbanka í einhverjum pörtum — verður ferlið að vera gegnsætt og það þarf að hafa samráð, ekki bara á milli stjórnarflokkanna heldur þvert yfir þingið og helst sem víðast út í samfélaginu, um hvernig við stöndum að því.

Ég tel að við þurfum að fara að huga að því hvernig við losum þetta fjármagn til þess að byggja upp aðra þætti í samfélaginu. Mér fannst hv. þingmaður lýsa sýn sinni á menntakerfið mjög vel, og er eindregið hægt að taka undir það, að nota menntakerfið m.a. til þess að ýta undir jöfnuð í samfélaginu. Nú, eða taka slíka peninga í einskiptisaðgerðir. Það eru gríðarlega miklar aðgerðir sem við þurfum hér á suðvesturhorninu til að forða okkur frá skattahækkunum sem meiri hlutinn ætlar að fara að boða.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að komið er í ljós að ekkert verður gert í ár, og Vinstri græn hafa sérstaklega fagnað því: Hvernig munu menn nýta árið til að byggja upp leikreglurnar og stefnuna til að fara í þetta söluferli? Það er augljóst, eftir umræðuna hér í dag, að stjórnarflokkana greinir gríðarlega á. Það eru tveir flokkar sem tala um samfélagsbanka, það er sérstaklega einn flokkur sem talar um að fara verði í söluferli. En síðan erum við með ríkisstjórnarsáttmála. Hvernig sér hv. þingmaður þessu máli vinda fram? Án þess að við förum í einhverjar skotgrafir verðum við að geta verið með það þroskaða umræðu að við reynum að nálgast sameiginlegt markmið um að reyna að losa eitthvað um þetta eignarhald ríkisins (Forseti hringir.) í bönkunum til þess m.a. að nota fjármuni í önnur skýr, sterk samfélagsverkefni eins og hv. þingmaður kom inn á.