149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:02]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður geti verið sæmilega vongóð um að í þessari umræðu eigum við einmitt það samtal sem nauðsynlegt er. Sú nefnd sem ég sit í, efnahags- og viðskiptanefnd, hefur þegar hafið umfjöllun um hvítbókina. Við ætlum að halda þeirri umfjöllun áfram, kalla til okkar gesti, fá fram ólík viðhorf — og smám saman mótast hugmyndir okkar betur.

Ég er ekkert endilega að boða að við verðum ein heild í nefndinni og sammála í einu og öllu en ég hygg að það sé grundvöllur. Þessi hvítbók er góður grunnur að því að okkur takist að ræða málið með yfirveguðum hætti. Það liggur ekkert á, eins og ég sagði í ræðu minni áðan. Það skiptir engu máli í mínum huga hvort við erum að tala um að selja einhverja eignarhluti í fjármálafyrirtækjunum árinu fyrr eða síðar. Aðalmálið er að við mótum hér skýra stefnu til framtíðar.

Auðvitað væri æskilegt að við gætum öll sameinast um þau sjónarmið sem ég tel að séu rétt. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að ég á dálítið í land — en ég vinn enn þá í því og skal leggja mitt af mörkum. En ég vek líka athygli á því að það er rétt að það kann að vera skynsamlegt að hefja ferlið með því að snúa sér að Íslandsbanka. Kannski á bara að byrja á því að skrá hlutabréfin og selja þau hægt og bítandi. Það eru þegar fastmótaðar reglur um hverjir geta farið með virkan eignarhlut og hvaða hæfi þeir þurfa að uppfylla.

En ég minni á að Sjálfstæðisflokkurinn, og hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson sérstaklega, hefur (Forseti hringir.) rætt um að það kunni að vera skynsamlegt að afhenda almenningi hluta af þeirri eign sem ríkið hefur bundið í viðskiptabönkunum. Það hlýtur að vera eitthvað sem við eigum að ræða opið í þessum sal.