149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:07]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Að frumkvæði hæstv. fjármálaráðherra var þessi hvítbók unnin og efnt til þessarar umræðu. Sú umræða heldur áfram. Henni lýkur ekki í dag. Allar vangaveltur um að stjórnarflokkarnir forðist umræðu um framtíðarskipulag fjármálakerfisins eru ekki á rökum reistar, þvert á móti. Það er meira að segja þannig að við erum svo kokhraust í ríkisstjórnarflokkunum að við töldum rétt að nálgast framtíðarsýnina með ákveðnum hætti í stjórnarsáttmálanum. Þannig að það liggur alveg fyrir hvert ríkisstjórnarflokkarnir vilja stefna.

Það liggur líka fyrir að ríkisstjórnin ætlar sér og telur rétt að ríkið haldi utan um ráðandi hlut í a.m.k. einum banka. Ég er annarrar skoðunar. En ég styð ríkisstjórnina í að ná því markmiði.

En varðandi bankaskattinn: Að lækka bankaskattinn snýst ekki um það, eins og hv. þingmaður var að velta fyrir sér, að þar með myndi verð á bönkunum hækka — sem að vísu er rétt að gerist. Lækkun á bankaskattinum snýst um samkeppnishæfni íslenskra banka við að veita þjónustu á samkeppnishæfu verði. Það eru íslensk heimili en þó ekki síst lítil og meðalstór fyrirtæki sem eiga enga möguleika, ólíkt stærstu fyrirtækjum okkar Íslendinga sem njóta þess í krafti stærðar sinnar að geta átt viðskipti við erlenda banka, sem þurfa ekki að bera þá miklu skatta sem eru lagðir á íslenska banka. (Forseti hringir.)

Þetta eru sérstakar álögur sem draga úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Þess vegna er svo mikilvægt að lækka bankaskattinn. Það er mjög mikilvægt að hv. þingmenn átti sig þeirri einföldu staðreynd.