149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:10]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Þetta er hin fínasta umræða. Eins og hefur komið fram er frjó og góð umræða um framtíð fjármálakerfisins einmitt að undirlagi hæstv. ríkisstjórnar. Hún er að hefjast í þingsal í dag og það verður áreiðanlega ekki í síðasta skipti sem við ræðum framtíðarfyrirkomulag fjármálakerfisins hér.

Hvítbókin er hinn ágætasti grunnur undir þá umræðu. Í henni eru margar fínar og góðar hugleiðingar sem geta nýst okkur sem munum taka ákvarðanirnar við þá vinnu sem fram undan er.

Líkt og hv. þm. Óli Björn Kárason kom inn á rétt áðan er vissulega fjallað um fjármálakerfið í stjórnarsáttmála, með leyfi forseta:

„Fjármálakerfið á að vera traust og þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt. Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því. Ljóst er þó að ríkissjóður verður leiðandi fjárfestir í a.m.k. einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun.“

Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar. Eftir henni vinn ég sem stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar. Það er hins vegar ýmislegt í stefnunni og í þeim hugmyndum sem við höfum rætt sem er þess virði að velta fyrir sér nákvæmlega hvað átt er við með, hvert við ætlum að stefna o.s.frv. En þetta eru línurnar sem við vinnum eftir.

Mikið hefur verið rætt um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Sumir hafa fundið því ýmislegt til foráttu. Ég nefndi áðan að margt gott væri að finna í hvítbókinni. Þar er til að mynda ágætis tilvitnun í skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem ég ætla að leyfa mér að vitna hér beint í úr hvítbókinni:

„Í skýrslu á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá árinu 2017 eru kostir við aðkomu ríkissjóðs af bönkum taldir vera félagslegir annars vegar og stuðningur við efnahagslega þróun hins vegar.

Í félagslega hlutverkinu felist að ríkisbankar séu líklegir til þátttöku í verkefnum sem auka samfélagslega velferð, t.d. með því að lána til svæða sem aðrir lánveitendur sinna ekki sökum markaðsbrests. Aðkoma ríkisins sem eiganda sé því í því samhengi að reka eins konar þróunarbanka sem fjármagni kerfislega mikilvægar atvinnugreinar sem einkageirinn vilji ekki eða geta ekki sinnt. Þá bendi gögn til þess að einkareknir bankar dragi hraðar úr lánsfjármagni en ríkisbankar í efnahagslægð.“

Og skömmu síðar í hvítbókinni, sem við höfum mörg mært í dag, og það með réttu því að þar er margt gott að finna, segir, með leyfi forseta:

„Ekkert hefur komið fram við vinnslu hvítbókarinnar sem bendir til þess að þeir bankar sem hafa verið í ríkiseigu undanfarin ár hafi staðið sig verr en keppinautarnir sem ekki lutu ráðandi eignarhaldi ríkisins. Þá er ríkið almennt álitið traustur eigandi. Auk þess má ætla að ríkið sé í sterkari stöðu en aðrir til að styðja við banka í sinni eigu ef hann lendir í vandræðum.“

Það er nefnilega ýmislegt sem rannsóknir sýna og fræðimenn komast að, ýmsir kostir við eignarhald ríkisins og kannski einmitt þess vegna sem ríkisstjórnin hefur þá stefnu að ríkið verði leiðandi fjárfestir í a.m.k. einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun. Mér hefur nefnilega þótt, og hef ég svo sem tjáð mig um það á þessum stað áður, umræðan að einhverju leyti hafa farið dálítið fram úr sér þegar kemur að framtíð fjármálakerfisins. Við fórum frá því að fá hvítbók, sem er grunnur undir umræðuna okkar, tækið okkar til að ræða þau mál, yfir í það að velta fyrir okkur hvernig við getum eytt fjármununum sem við fengjum við sölu bankanna. Við slepptum öllu þar á milli. Þegar ég segi „við“ á ég við umræðuna almennt í samfélaginu.

Þess vegna hefur mér þótt ánægjulegt að heyra hversu margir tala um að fara þurfi varlega í þeim efnum, marka þurfi stefnu til lengri tíma og þetta eigi að gerast hægt og rólega, hver sem ákvörðunin verður. Við getum ekki horft fram hjá því að sporin hræða. Það er ekki hægt. Við getum ekki kinnroðalaust staðið í þessum sal tíu árum eftir efnahagshrun og talað um einkavæðingu banka eins og það sé úr lausu lofti gripið og í tómarúmi. Traust er mikilvægt. Þess vegna ber okkur skylda til að vanda vel til allra verka hvað það varðar. Okkur ber skylda til að skoða alla möguleika, útiloka ekki neinn möguleika.

Mér hefur þótt stökkið frá umræðunni eða hvítbókinni yfir í að eyða söluhagnaði vera mjög takmarkandi, því að þá veltum við ekki upp öllum möguleikum. Hvað þýðir að ríkið ætli að vera leiðandi fjárfestir í a.m.k. einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun? Þýðir það að selja eigi einn banka? Ég veit það ekki. Þýðir það að kannski eigi að sameina tvo banka? Það er ekkert sem segir að bankar þurfi að vera þrír. Það er tekið fram í ágætri umsögn Ásgeirs Brynjars Torfasonar, sem situr í fjármálaráði, að hugmyndir í hvítbókinni um að þrír sé einhver töfratala varðandi stærð eða fjölda banka séu dálítið úr lausu lofti gripnar. Staðhæfingin um að lágmarksfjöldi banka sé þrír sé ekki byggð á sérstaklega sterkum rökum.

Er ekki einnar messu virði að velta fyrir sér hvernig fjármálakerfi örhagkerfisins Íslands eigi að vera? Mér þykir við þurfa að ræða meira um samkeppni að utan. Ég held að eftir 20 ár munum við ræða fjármálakerfið á allt öðrum forsendum. Þá horfum við á þá staðreynd að samkeppnin komi ekki síst erlendis frá, eins og þegar er að einhverju leyti byrjað.

Forseti. Hér var minnst á samfélagsbanka. Ég skil vel að sumir hvái og segi: Þessir flokkar tala um samfélagsbanka, aðrir gera það ekki og sumir gera meira að segja grín að þeim. Við vitum ekkert hvað samfélagsbanki er því við höfum ekki komið okkur saman um hver niðurstaðan er.

Ég ætla leyfa mér, forseti, að vitna í umrædda umsögn fulltrúa fjármálaráðs, Ásgeirs Brynjars Torfasonar:

„Umfjöllun hvítbókar um samfélagsbanka, sparisjóði og samfélagsleg sjónarmið í bankarekstri er frekar takmörkuð. Ekki er vísað til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá 2014 um sparisjóðina. Vel má hugsa sér að einn af þremur bönkum á íslenska markaðnum verði að fullu í eigu landsmanna eða sjálfseignarstofnunar sem ráðstafar hagnaði til samfélagslegra verkefna. Það gæti stuðlað að fjölbreyttri flóru mismunandi banka sem viðskiptavinir geta valið um þjónustu frá út frá mismunandi eignarhaldi á áherslum frekar en að sjá fyrir sér þrjá banka sem allir eru skráðir á hlutabréfamarkað. Þýskaland, eitt öflugasta hagkerfi Evrópu, byggir t.d. á bankakerfi sem er aðeins að hluta til með formi skráðra hlutafélaga. Þetta þarf að ræða vandlega.“

Því síðasta er ég sammála. Þetta þarf að ræða vandlega. Og það er okkar hlutverk. Það samtal er að hefjast hér. Hvernig viljum við sjá fjármálakerfið? Hvað er samfélagsbanki? Hverju breytir að hafa samfélagsbanka? Á að sameina banka, eins og ég nefndi? Hvað græðum við sem samfélag á að taka arð reglulega af bönkunum frekar en að fá einskiptisgreiðslur í gegnum söluhagnað? Og áfram má halda.

Í þá umræðu þurfum við að vera óhrædd við að fara fullkomlega kreddulaus. Við þurfum að vera óhrædd við að fara í þá umræðu án einhverra fyrir fram mótaðra hugmynda um að það eina sem fyrir okkur liggi sé að ákveða hvaða banka eigi að selja og hvenær. Það er allt undir, að mínu viti.

Það er kannski eitt af því sem mér þykir miður í hvítbókinni, mér finnst hún einhverju leyti of mótuð orðfæri hagsmunaaflanna á markaði, sterkri hugmyndafræði og hagfræðikenningum að einhverju leyti, sem mér finnst hafa beðið skipbrot í hruninu. Hún opnar augun ekki nógu mikið fyrir því hvað við getum gert. Við eigum að vera óhrædd við að gera það. Niðurstöðuna veit ég ekki fyrir fram. Ég er í það minnsta óhræddur við að ræða hvað sem er í þeim efnum, að því gefnu að við lokum ekki á neitt, bara „af því bara“.