149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir hans ræðu og eldmóð. Maður greinir ákveðnar hugsjónir sem eru í takti við það sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur boðað. Auðvitað er þetta ekkert bara innan ríkisstjórnarflokkanna, ég ætla ekki að binda mig við það, það er alveg augljóst að það eru skiptar skoðanir ekki bara innan ríkisstjórnarflokkanna heldur hugsanlega líka annarra flokka.

Ég tek undir það sem hefur verið sagt. Mér finnst hvítbókin góður grunnur til að halda áfram. Ég vona að hún verði ekki bara einhver sáluhjálparbók fyrir ríkisstjórnarflokkana. Við verðum að hugsa þetta miklu breiðar og við verðum að vinna þetta þannig.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði. Sporin hræða. Við verðum að læra af reynslunni. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess, ef og þegar við förum út í söluferli, að vera búin að byggja upp traust ferli, trúverðugleika, þannig að allur almenningur skilji hvert stjórnmálin eru að fara með fjármálakerfið. Að við sjáum fram á breytingar, höfum sýn og stefnu sem stuðlar að því að ekki síst lítil og meðalstór fyrirtæki hafi aðgang að sama ódýra fjármagninu og stóru fyrirtækin, sem eru löngu farin úr landi af því að þau gera upp í öðrum gjaldmiðli. Svo ég tali ekki um heimilin sem borga þrefalt í vöxtum miðað við það sem gengur og gerist á erlendri grundu.

Ég fagna þeim tóni sem kom fram hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, að þau eru tilbúin til þess að ræða krónuna í þessu samhengi, af því að það segir í hvítbókinni m.a.: Gjaldmiðilsáhætta gegnsýrir hið íslenska efnahagsumhverfi. Það er ekki hægt að líta fram hjá krónuhlutanum.

Fyrsta spurningin sem ég vil spyrja hv. þingmann að, ég kem síðan með fleiri á eftir, er: Tekur hann undir það sem kom fram hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni í ræðu hans, að lækkun bankaskattsins muni (Forseti hringir.) stuðla að því að aðgengi, ekki síst lítilla og meðalstórra fyrirtækja, verði betra að ódýrara fjármagni og hún (Forseti hringir.) muni stuðla að betra bankaumhverfi?